Ilmandi tveggja daga skötuveisla á Tenerife

Frá Nostalgia bar á Tenerife. Þar verður boðið upp á …
Frá Nostalgia bar á Tenerife. Þar verður boðið upp á skötu bæði 22. og 23. desember. Mynd/Herdís Hrönn Árnadóttir

Fjölmargir Íslendingar sem hyggjast dvelja á sólríku eyjunni Tenerife yfir jólin eru staðráðnir í að borða skötu fyrir jól eins og hefðin segir til um. Íslenskur bar sem nefnist Nostal­gia Bar á Tenerife býður til skötuveislu bæði á Þorláksmessu og 22. desember. „Við auglýstum í október og það fylltist allt á stuttum tíma. Við ákváðum því að bæta við öðrum degi,“ segir Herdís Árnadóttir sem á og rekur Nostalgia Bar með eiginmanni sínum Sævari Lúðvíkssyni. Barinn er á Amerísku ströndinni eða nánar tiltekið á Playa de las Américas.

Herdís bjóst ekki við að jafnmargir vildu komast í skötuveisluna eins og raun ber vitni en salurinn tekur um 70 manns. Hún bætir við að hún hafi þó gert sér grein fyrir því að margir Íslendingar væru á svæðinu yfir jólin sem vildu upplifa örlítið af íslenskum jólum í sólinni. Hún tekur fram að að það verði eflaust mikið fjör í veislunni á Þorláksmessu og ekki ólíklegt að sumir vilja gera sér glaðan dag eftir borðhaldið.

Flugu með skötuna í farþegaflugi 

Þegar Herdís auglýsti skötuveisluna veltu sumir því fyrir sér hvernig hún hygðist koma fisknum, sem alla jafna er stæk lykt af, til landsins. Það var auðsótt mál. Faðir Herdísar sem er gamall fisksali valdi skötuna vandlega á Íslandi. Henni var pakkað rækilega inn og komið fyrir í töskum sem foreldrar hennar flugu með til Tenerife. „Ef það er einhver sem getur valið skötuna vel þá er það pabbi,“ segir Herdís glaðlega. Þegar hún náði í foreldra sína á flugvöllinn viðurkennir hún að hafa búist við því að sjá foreldra sína standa eina með töskurnar og umlukt stækri skötulykt. Sú var ekki raunin. „Það var ekki einu sinni lykt af töskunum. Skötunni var svo vel pakkað inn að við ætluðum aldrei að ná að vefja utan af henni,“ segir Herdís.

Herdís Hrönn og eiginmaður hennar, Sævar Lúðvíksson, reka Nostalgia bar.
Herdís Hrönn og eiginmaður hennar, Sævar Lúðvíksson, reka Nostalgia bar. Mynd/Herdís Hrönn Árnadóttir


Í skötuveislunni verða foreldrar hennar Herdísi og Sævari til halds og traust enda hafa þau eldað skötu á Þorláksmessu um árabil. „Það verður gott að nýta þekkingu þeirra,“ segir Herdís. Margar íslenskar hendur leggja sitt af mörkum til veislunnar en með skötunni verður boðið upp á íslenskt rúgbrauð úr smiðju tengdamóður Herdísar. „Ég þarf að passa mig að stelast ekki í rúgbrauðið í frystinum,“ segir hún. Á boðstólnum verður einnig nóg af hamsatólg. 

Útlendingar spenntir fyrir kæstri skötu

Bar- og veitingahúsaeigendur í nágrenni íslenska barsins eru mjög forvitnir um þennan íslenska sið að borða kæsta skötu fyrir jólin. „Þeir spyrja mikið út í skötuna og segjast vilja smakka. Ég veit samt ekki alveg hvernig þeir eiga eftir að bregðast við þegar þeir finna lyktina,“ segir Herdís og hlær og bætir við „kannski verð ég ekki alveg jafnvinsæl.“

Þegar skötuveislunni lýkur sýður hún hangikjöt til að draga úr lyktinni. Á aðfangadag og jóladag verður íslenskur mataseðill á barnum, hangikjöt og hamborgarhryggur með tilheyrandi. „Aðfangadagur verðu hátíðlegur en við hlustum á messuna og borðum íslenskan mat,“ segir hún.      

Íslenski barinn stendur undir nafni en næst á dagskrá er þorrablót sem verður haldið í lok janúar. Undirbúningur fyrir það er þegar hafinn. 

Mynd/Herdís Hrönn Árnadóttir

Gott að breyta til 

Í sumar, nánar tiltekið 20. júlí, opnuðu hjónin barinn og sjá svo sannarlega ekki eftir því. „Okkur langaði að breyta til og gera eitthvað skemmtilegt. Maður verður að prófa að gera það sem mann langar til í lífinu,“ segir Herdís. Í gegnum starfið hefur hún kynnst fullt af skemmtilegu fólki. „Það skemmtilega við þetta er að hér eru allir jafnir. Allir eru í stuttbuxum og hlýrabol,“ segir hún og hlær.  

Hér má sjá Face­book-síðu staðar­ins þar sem ít­ar­legra heim­il­is­fang er að finna.

Frétt mbl.is: Fluttu til Teneri­fe og opna bar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert