Pylsur til Afganistan

„Mér leist ekki á þetta til að byrja með,“ segir …
„Mér leist ekki á þetta til að byrja með,“ segir jólasveinninn Bjúgnakrækir sem á dögunum var sendur til Afganistan og fleiri landa af UNICEF á Íslandi. Teikning/Brian Pilkington

 

„Mér leist ekki á þetta til að byrja með,“ segir jólasveinninn Bjúgnakrækir sem á dögunum var sendur til Afganistan og fleiri landa af UNICEF á Íslandi. Þangað fór hann með svokallaða „skóla í kassa“ en það eru kassar sem innihalda öll helstu námsgögn sem börn í neyðaraðstæðum þurfa til að halda skólagöngu sinni áfram.

„Mér fannst einhvern veginn liggja beinna við að færa þeim mat. Þau eru ekki beinlínis að maka krókinn þarna á þessum slóðum. Væri ekki nær að fara með pylsur til þeirra? Börn elska pylsur ... velflest alla vega.“

En Bjúgnakræki átti eftir að snúast hugur í þessu máli. „Starfsfólk UNICEF útskýrði fyrir mér að menntun væri eitt beittasta vopnið sem til væri gegn fátækt og hungri. „Skóli í kassa“ er bráðabirgðaskóli sem gerir krökkum kleift að halda áfram að læra við neyðaraðstæður. Þannig finna þau fyrir öryggi og reglufestu við erfiðar aðstæður og það hjálpar þeim mjög mikið. Snemma beygist krókurinn og allt það.“ 

Ljósmynd/UNICEF

Aftur til Afganistan?

Þó að lífið í Afganistan sé erfitt um þessar mundir segist Bjúgnakrækir gjarnan vilja fá tækifæri til að koma þangað aftur einhvern tímann í framtíðinni.

„Ég er farinn að þekkja þarna hvern krók og kima og veit hvað það býr mikill kraftur í þessum krökkum. Ég veit að þau eiga framtíðina fyrir sér og geta byggt aftur upp samfélagið ef þau fá góðan stuðning. Það væri rúsínan í pylsuendanum á þessu ævintýri.“

Ljósmynd/UNICEF

Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti. Þeir hafa hins vegar snúið við blaðinu og hjálpa nú UNICEF við að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð. Á vefsíðunni sannargjafir.is getur fólk keypt gjöf sem bætir líf barna vítt og breitt um heiminn – gjöf á borð við skóla í kassa. 

Til að leggja lóð sín á vogarskálarnar birtir mbl.is myndband með jólasveini dagsins á hverjum degi fram að jólum og fylgist með ferðum sveinanna um heiminn.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, berst fyrir réttindum allra barna og er í einstakri stöðu til að þrýsta á um breytingar á heimsvísu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert