Reykjanesbær semur loks við kröfuhafa

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Ljósmynd/Víkurfréttir

Reykjanesbær hefur samið við kröfuhafa Eignarhaldsfélagsins Fasteignar varðandi skuldir félagsins sem lengi hafa verið mjög íþyngjandi fyrir bæjarfélagið. Allir flokkar í bæjarstjórn stóðu á bak við samninginn að sögn Kjartans Más Kjartanssonar bæjarstjóra. Í samkomulaginu felst að gerðar eru skuldbreytingar, skilmálabreytingar og eignir seldar. Ekki er gert ráð fyrir afskriftum eða niðurfellingum skulda að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Stór áfangi í að ná utan um fjármálin

Kjartan segir þetta niðurstöðu vinnu sem hafi lengi staðið yfir í stuttu samtali við mbl.is nú í kvöld. „Þetta er stór áfangi í þeirri vinnu sem hefur verið unnin í að ná utan um fjármál bæjarins,“ segir Kjartan. Þótt upphaflega hafi verið lagt upp með niðurfellingu skulda segir Kjartan að komið hafi í ljós að hægt væri að vinna málið eftir öðrum leiðum. „Þetta er mjög stórt skref í rétta átt, en ekki lokaskrefið,“ segir hann.

Viðræðum við kröfuhafa Reykjaneshafnar er enn ólokið samkvæmt tilkynningunni, en samhliða skoðun á fjármálum sveitarfélagsins hefur verið unnið að fjármálum hafnarinnar.

Komist undir 150% skuldaviðmið árið 2022

Kjartan segir að ef allt fari áfram sem horfir muni sveitarfélagið geta komist undir 150% skuldaviðmið árið 2022, en ítarleg aðlögunaráætlun um það verður lögð fram í byrjun næsta árs. Segir Kjartan að samkomulagið geri einnig ráð fyrir að samhliða þeirri miklu uppbyggingu sem eigi sér stað í sveitarfélaginu verði hægt að ráðast í uppbyggingu grunnþjónustu, meðal annars skóla, í Dalshverfi árið 2018.

Segir í tilkynningunni að með þessari niðurstöðu sé Reykjanesbær að rétta úr kútnum og bæjaryfirvöld horfi fram á bjartari tíma þótt áfram verði nauðsynlegt að gæta aðhalds í rekstri og útgjöldum. Kjartan segir við mbl.is að með þessu séu menn farnir að sjá ljósið.

Frá Reykjanesbæ.
Frá Reykjanesbæ. Sigurður Bogi Sævarsson

Möguleg sala á ýmsum eignum

Með samkomulaginu er greint á milli eigna sem nýttar eru til lögbundinnar grunnþjónustu sveitarfélagsins og annarra eigna, en dregið er verulega úr leiguskuldbindingum sveitarfélagsins vegna þeirra eigna. Samkomulagið er háð endanlegri undirritun aðila sem og skilyrðum af beggja hálfu sem unnið verður að því að útfæra og uppfylla á næstunni ásamt því að ljúka viðræðum við aðra hagsmunaaðila og kröfuhafa sveitarfélagsins og samstæðu þess. Einnig er sveitarfélaginu gert kleift að huga að uppbyggingu nauðsynlegra innviða, s.s. nýs grunnskóla í Dalshverfi og fjölgun leikskólaplássa.

Samhliða þessu er ætlunin að færa Fasteignir Reykjanesbæjar, sem heldur m.a. utan um félagslegt húsnæði, yfir í húsnæðissjálfseignarstofnun eins og heimild er fyrir í nýjum lögum um almennar íbúðir og mun það létta talsvert á skuldabyrði sveitarfélagsins.

Að sögn Kjartans þýðir þetta að eignum í fasteignafélaginu sem teljast til grunnþjónustu, svo sem skólar og íþróttamannvirki, verði áfram í félaginu. Aðrar eignir sem mögulega sé hægt að vera án, en sveitarfélagið vilji þó áfram eiga, fari í nýtt félag sem heitir F2. Undir lok tímabilsins sem samið er til, í árslok 2022, getur sveitarfélagið annaðhvort selt eignirnar eða ákveðið að eiga þær áfram. Í dag eru langtímaleigusamningar til mun lengri tíma en 5 ára sem setji miklar leiguskuldbindingar á sveitarfélagið. Segir Kjartan að þessi ráðstöfun minnki þær skuldbindingar.

Sparar 2,2 milljarða á tímabilinu

Segir hann að á tímabilinu muni samningurinn skila því að rekstrarútgjöld í formi leigugjalda muni lækka um 2,2 milljarða.

Spurður um ákvæði um sölu eigna segir Kjartan að þar sem verið sé að horfa til fasteigna sem sveitarfélagið hafi áður keypt, svo sem einbýlishúsa sem átti að rífa og fjarlægja en ekki verið gert og annarra slíkra eigna. Þá verði haldið áfram með sölu á svokölluðu Ramma-húsi sem sé í lokaferli sölu, en fyrir það mun fást um 340 milljónir.

Fyrr á árinu var til skoðunar að fjárhagsstjórn yrði skipuð yfir sveitarfélaginu en ekkert varð af því. Seinna sagði Reykjanesbær við kröfuhafa að komið gæti til greiðslufalls. Héldu viðræður milli aðila þó áfram og nú hafa menn komist að samkomulagi.

Frétt mbl.is: Reykjanesbær biður um lengri frest

Frétt mbl.is: Samningar við kröfuhafa náðust ekki

Frétt mbl.is: Reykjanesbær biður um lengri frest

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert