Alda Hrönn vann í góðri trú

Lögreglunni barst nafnlaust bréf þar sem þar sem fram komu …
Lögreglunni barst nafnlaust bréf þar sem þar sem fram komu m.a. ásakanir um að lögreglumaður hefði dreift meðal vina sinna myndum af fórnarlömbum kynferðisbrota. mbl.is

Settur héraðssaksóknari í LÖKE-málinu segir það hafa verið „nokkrum vandkvæðum bundið“ að fá aðstoð lögreglumanns við skýrslutökur og að fá aðstöðu hjá lögreglu til skýrslutöku við rannsókn málsins. Skýrðist það af því að lögregluembætti á höfuðborgarsvæðinu töldu sig vanhæf til að koma að málinu. „Eftir nokkurn eftirgang og síðar aðkomu setts ríkissaksóknara, fékkst loks lögreglumaður til aðstoðar frá embætti héraðssaksóknara um miðjan október 2016 auk þess sem yfirheyrsluherbergi hjá embættinu var fengið að láni í skýrslutöku.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ákvörðun setts héraðssaksóknara, Lúðvíks Bergvinssonar, um að fella niður rannsókn á meintu broti Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, aðallögfræðings lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglumaðurinn Gunnar Scheving Thorsteinsson og starfsmaður Nova kærðu Öldu fyrir að hafa misfarið með lögregluvald við rannsókn hins svokallaða LÖKE-máls. Lúðvík hefur nú fellt málið niður þar sem hann telur það ekki líklegt til sakfellis.

Lögfræðingur Gunnars mun áfrýja niðurstöðu setts héraðssaksóknara til setts ríkissaksóknara í málinu.

Í kærum tvímenninganna var Alda borin þeim sökum að hafa m.a. stofnað til og stjórnað lögreglurannsókn á ætluðum brotum lögreglumanns í starfi án lagaheimildar, auk þess sem hún var sökuð um rangar sakargiftir og margt fleira. Mennirnir tveir byggðu kæruna á því að meint brot Öldu við framkvæmd rannsóknarinnar hefðu valdið þeim verulegu tjóni, t.a.m. hefði mannorð þeirra beðið hnekki auk þess sem þeir hefðu ýmist tímabundið eða varanlega verið vikið brott eða sagt upp sínum störfum. 

Alda Hrönn Jóhannsdóttir braut ekki lög við rannsókn LÖKE-málsins að …
Alda Hrönn Jóhannsdóttir braut ekki lög við rannsókn LÖKE-málsins að mati setts héraðssaksóknara. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Upplýsingarnar ekki skráðar

Í ákvörðun setts héraðssaksóknara kemur fram að við rannsókn málsins hafi m.a. verið tekin skýrsla af Öldu Hrönn auk þess sem upplýsingaskýrslur voru teknar af lögreglumönnum hjá embættum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Suðurnesjum. Ýmissa fleiri gagna var aflað s.s. frá Héraðsdómi Reykjaness vegna aðgerða lögreglu á rannsóknarstigi málsins.

Við rannsókn málsins var lögð áhersla á að fá afhent öll gögn og upplýsingar sem vöruðu rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum á LÖKE-málinu. Ástæðan var sú að takmarkaðar upplýsingar lágu fyrir um rannsóknina á þessum tíma þar sem skrifleg gögn voru af skornum skammti, bæði hvað varðaði rannsókna sjálfa og samskipti ríkissaksóknara við lögregluna á Suðurnesjum varðandi heimildir og rannsóknarfyrirmæli. Þá lá það snemma fyrir, segir í ákvörðun setts héraðssaksóknara, að upplýsingar um framvindu rannsóknar málsins voru ekki skráðar í LÖKE-kerfi lögreglu fyrr en þann 3. apríl 2014 af ríkissaksóknara. Rannsóknin var heldur ekki skráð í skráningarkerfi lögreglunnar á Suðurnesjum.

Upphaf LÖKE-málsins

En hver var aðdragandinn að þessu öllu?

Í ítarlegum rökstuðningi setts héraðssaksóknara kemur fram að í apríl 2012 hafi skjáskot af samskiptum þriggja einstaklinga, þar á meðal tvímenninganna sem kærðu Öldu, verið tekin af lokuðu spjalli þeirra á Facebook. Þessum gögnum var síðar komið til lögreglu.

Upphaf málsins má þó rekja til síðari hluta ágústmánaðar 2013 en þá fékk lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sent nafnlaust bréf þar sem fram komu m.a. ásakanir um að lögreglumaður hefði dreift meðal vina sinna myndum af fórnarlömbum kynferðisbrota. Í bréfinu kom fram nafn manneskju sem átti að geta gefið frekari upplýsingar. Átti fulltrúi embættisins fund með viðkomandi og bað um frekari gögn. Ekkert varð þó af frekari afhendingu gagna til lögreglunnar á því stigi málsins.

Lögreglan fékk í hendur skjáskot af samræðum manna í lokuðum …
Lögreglan fékk í hendur skjáskot af samræðum manna í lokuðum hópi á Facebook. AFP

Lögreglan hafði svo samband við ákveðin samtök vegna málsins og fékk þær upplýsingar að þeim hefðu borist upplýsingar um að starfandi lögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu héldi úti Facebook-síðu ásamt fleirum og að „ekki væri loku fyrir það skotið að þeir sem að síðunni stóðu hafi framið kynferðisbrot gegnum stúlkum sem þar er fjallað um,“ líkt og segir í ákvörðun setts héraðssaksóknara. Þar kemur ennfremur fram að talskona samtakanna hafi sett sig í samband við Öldu Hrönn vegna málsins og að þær hafi átt fund. 

Ódagsetta minnisblaðið

Í ódagsettu minnisblaði setts saksóknara hjá embætti ríkissaksóknara frá apríl 2014 kemur fram að Alda hafi á þessum tíma upplýst ríkissaksóknara um þessi samskipti sín við talskonu samtakanna. Í framhaldi af þeim samskiptum hafi verið ákveðið að fela lögreglunni á Suðurnesjum rannsókn málsins. Engin gögn um möguleg kynferðisbrot mannanna lágu þá fyrir.

Alda Hrönn hitti svo talskonu samtakanna og manneskjuna sem nafngreind hafði verið í nafnlausa bréfinu 1. október 2013. Á þeim fundi fékk hún afhentan USB-lykil með 1596 skjáskotum af spjalli mannanna af Facebook.

Í kjölfarið var haldinn fundur hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum þar sem Alda gegndi starfi varalögreglustjóra. Ákveðið var á fundinum að halda leynd yfir málinu. Hvorki eru til fundargerðir eða minnispunktar um efni fundarins eða þær ákvarðanir sem þar voru teknar.

Samkvæmt því sem fram kom við rannsókn setts héraðssaksóknara á málinu þá virðist markmið rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum hafa verið það að kanna hvort gögn málsins bæru með sér upplýsingar um möguleg kynferðisbrot þeirra sem þátt tóku í umræðunni á Facebook-síðunni auk þess að skoða mögulegt brot lögreglumanns í starfi.

Ekkert benti til kynferðisbrots

Í skýrslutökum kom fram að frumrannsókn málsins leiddi ekkert í ljós sem benti til þess að skjáskotin bæru með sér að kynferðisbrot hafi átt sér stað gagnvart þeim stúlkum sem fjallað var um á síðunni.

Samkvæmt minnisblaði setts saksóknara kynnti Alda Hrönn honum símleiðis í nóvember 2013 að frumrannsókn hefði leitt í ljós að grunur væri um að viðkomandi lögreglumaður „hefði gerst sekur um brot í starfi, þ.e. misnotað aðgang sinn að upplýsingakerfum lögreglunnar, svo og brotið gegn trúnaðarskyldum sínum.“ Samkvæmt minnisblaðinu var ákveðið að fela lögreglunni á Suðurnesjum að fara með rannsókn á meintum brotum lögreglumannsins í starfi.

Í ákvörðun setts héraðssaksóknara er tekið fram að á þeim tíma hafði ríkissaksóknari ekki nein gögn undir höndum til að leggja sjálfstætt mat á sakarefnið og þann grun sem lögreglan á Suðurnesjum taldi vera til staðar. „Ekki er loku fyrir það skotið að sjálfstætt mat af hálfu ríkissaksóknara á sakarefninu hefði getað leitt til annarrar niðurstöðu en þeirra sem birtist í afstöðu lögreglunnar á Suðurnesjum til málsins.“ 

Samkvæmt því sem fram kom við rannsókn setts héraðssaksóknara á …
Samkvæmt því sem fram kom við rannsókn setts héraðssaksóknara á málinu þá virðist markmið rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum hafa verið það að kanna hvort gögn málsins bæru með sér upplýsingar um möguleg kynferðisbrot þeirra sem þátt tóku í umræðunni á Facebook-síðunni auk þess að skoða mögulegt brot lögreglumanns í starfi. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ekki samræmi í orðalagi

Settur héraðssaksóknari vekur einnig athygli á því að ekki sé fullkomið samræmi milli þess orðalags sem fram kemur um rannsóknarfyrirmælin í svörum ríkissaksóknara til fréttamanns RÚV í mars 2015 og þess sem fram kemur í minnisblaði setts saksóknara í apríl 2014. „Í minnisblaðinu er því lýst að lögreglunni á Suðurnesjum hafi verið falið að rannsaka meint brot lögreglumanns í starfi, en í umræddum svörum ríkissaksóknara, sem eru rituð nærri einu ári eftir að minnisblaðið var ritað samkvæmt áritun, kemur fram að lögreglunni á Suðurnesjum hafi einvörðungu verið falin afmarkaður þáttur, þ.e. að afla tiltekinna upplýsinga hjá ríkislögreglustjóra.“

Settur héraðssaksóknari óskaði eftir nánari upplýsingum frá ríkissaksóknara um þetta atriði. Í svörum hans um sjálfstætt mat á sakarefninu kemur fram að það hafi verið mat hans á þeim tíma að hagræði hafi falist í því að fela lögreglustjóranum á Suðurnesjum að afla gagna hjá tölvudeild ríkislögreglustjóra, þar sem embættið hafi farið yfir þau Facebook-gögn sem fyrir lágu.

Óskaði upplýsinga um uppflettingar

Þá kemur að hlut ríkislögreglustjóra í málinu. Samkvæmt svörum sem embættið veitti settum héraðssaksóknara mætti Alda Hrönn í eigin persónu á upplýsingatæknideild embættisins og ámálgaði erindið. Hún afhenti einnig bréf frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsett 16. janúar 2014, þar sem farið var fram á aðstoð embættisins við öflun upplýsinga. Í bréfinu kom fram að beiðni um afhendingu upplýsinga um uppflettingar lögreglumanns í LÖKE-kerfinu byggi á grun um að hann hafi misnotað upplýsingar úr því. Bréfið var ritað á bréfsefni sem var „kyrfilega merkt lögreglustjóranum á Suðurnesjum,“ segir í ákvörðun setts héraðssaksóknara. „Hvorki kemur fram í bréfinu að beiðni um rannsókn á uppflettingum í LÖKE hafi verið sett fram samkvæmt umbæði eða fyrirmælum ríkissaksóknara, né að rannsókn málsins á þeim tímapunkti hafi verið undir stjórn eða forræði ríkissaksóknara.“

Alda Hrönn og lögreglumenn á Suðurnesjum voru í samskiptum við lögreglumenn hjá embætti ríkislögreglustjóra næstu vikur og mánuði. Samskiptin voru óformleg og því voru hvorki skráðar fundargerðir né tekin saman minnisblöð vegna þeirra.

Orðfærið sýndi kvenfyrirlitningu

Afrakstur lögreglunnar á Suðurnesjum er rakinn í greinargerð sem dagsett er 31. mars 2014 og afhent ríkissaksóknara. Í greinargerðinni er auk málsatvika og meintan grun um refsivert brot fjallað nokkuð um orðfæri og málfar þeirra einstaklinga sem höfðu aðgang aðFacebook-síðunni og tjáðu sig þar. Að mati höfunda greinargerðarinnar væri orðfærið ósæmilegt og sýndi kvenfyrirlitningu.

Lúðvík Bergvinsson, settur héraðssaksóknari í LÖKE-málinu.
Lúðvík Bergvinsson, settur héraðssaksóknari í LÖKE-málinu.

Niðurstaða greinargerðarinnar var sú að rökstuddur grunur væri til staðar um að umræddur lögreglumaður hefði nýtt sér kerfi lögreglunnar og misnotað aðstöðu sína og upplýst hina í Facebook-hópnum um símafærslur og símasamskipti einhverra stúlkna.

Settur héraðssaksóknari segir að þessi niðurstaða, þ.e. um grun um misnotkun á upplýsingum um símasamskipti, sé ekki í fullkomnu samræmi við það sem fram kom í skýrslutökum yfir lögreglumanni sem sá að mestu um frumrannsókn málsins.

Þrír handteknir

Ríkissaksóknari gaf út fyrirmæli um handtöku 11. apríl 2014 á þeim einstaklingum sem höfðu haft samskipti á Facebook-síðunni. Þá var húsleit gerð á heimilum  þeirra. 

Lögreglumaðurinn var handtekinn í sumarbústað í Árborg þar sem hann var að skemmta sér með starfsbræðrum sínum. Í húsleit á heimili hans var lagt hald á fartölvu, minnislykla og fleira. Hann var látin laus úr haldi lögreglu næsta dag í kjölfar yfirheyrslna. Tveir menn til viðbótar voru handteknir. Ríkissaksóknari felldi niður mál á hendur tveimur mannanna sem átt höfðu samskiptin á Facebook. Hins vegar var ákveðið að ákæra lögreglumanninn vegna uppflettinga í LÖKE-kerfinu og fyrir að skoða þar upplýsingar sem ekki tengdust starfi hans. Undir meðferð málsins fyrir héraðsdómi var sá ákæruliður felldur niður.

Kærur tvímenninganna á hendur Öldu Hrönn voru byggðar á því að rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum hefði verið einkarannsókn hennar og engar heimildir staðið til þess að embættið gæti framkvæmt umrædd rannsókn. 

Engin skrifleg samtímagögn

Settur héraðssaksóknari kemst að þeirri niðurstöðu að engin skrifleg samtímagögn séu til um það hvaða rannsóknarfyrirmæli ríkissaksóknari gaf lögreglu á Suðurnesjum. Sagt var að þau hefðu aðeins verið gefin munnlega. Hann segir ljóst að ríkissaksóknari hafi ríkar heimildir til að fela lögreglu rannsókn mála og gefa henni fyrirmæli um framkvæmd rannsókna. Ekkert í lögum meini ríkissaksóknara að gefa lögreglu munnleg fyrirmæli en á hinn bóginn er ljóst að öll sönnun um tilvist, framkvæmd og raunverulegt efni rannsóknarfyrirmæla ríkissaksóknara við þær aðstæður er örðugri en ella. 

Settur héraðssaksóknari segir að aðkoma Öldu Hrannar á frumrannsókn málsins hafi verið lítil sem engin. Aðkoma hennar að að rannsókn á uppflettingum í LÖKE hafi hins vegar verið mun meiri.

Ekkert bendir til lögbrots

Er það niðurstaða hans að eins og málið liggi fyrir sé ekkert sem bendi til þess að Alda Hrönn hafi í heimildarleysi rannsakað málið, aflað upplýsinga, dreift nektarmyndum eða borið rangar sakargiftir á mennina tvo sem hana kærðu. „Ennfremur hafa ekki komið fram neinar upplýsingar sem færa rök að því að kærða hafi veitt fjölmiðlum upplýsingar sem leynt áttu að fara, eða dreift þeim með ólögmætum hætti, líkt og haldið er fram í kæru.

Þvert á móti verður að líta svo á að aðkoma kærðu að málinu hafi verið í samræmi við munnleg fyrirmæli ríkissaksóknara [...]. Því hafi lögreglan á Suðurnesjum, þ.m.t. kærða, verið í góðri trú um að réttmætar heimildir lögreglunnar til rannsóknar á málinu væru til staðar.“

Er það því mat setts héraðssaksóknara, Lúðvíks Bergvinssonar, að ekkert hafi komið fram við rannsókna sem bendi til þess að Alda Hrönn hafi gerst sek um lögbrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert