Hafnar kröfu Lárusar og Jóhannesar

Lárus Welding og Jóhannes Baldursson fyrir miðri mynd, en þeir …
Lárus Welding og Jóhannes Baldursson fyrir miðri mynd, en þeir voru báðir ákærðir í málinu. Reimar Pétursson, lögmaður Jóhannesar er til hægri. Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu þeirra Lárusar Welding og Jóhannesar Baldurssonar, sem ákærðir eru í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis, um að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins hvort það samrýmist ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins um innherjasvik og markaðsmisnotkun að fjármálafyrirtæki haldi uppi svokallaðri óformlegri viðskiptavakt með eigin bréf.

Í úrskurðinum er vísað til dóms Hæstaréttar í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans og að þar hafi verið skorið úr þessu álitaefni og í þeirri niðurstöðu meðal annars stuðst við skýringu á umræddri tilskipun. Héraðsdómur segir því skýrt dómafordæmi liggja fyrir um álitaefnið.

Í úrskurðinum kemur fram að í kröfu ákærðu í málinu hafi þeir vísað til þess að uppi væru aðstæður sem væru til þess fallnar að draga úr fordæmisgildi Landsbankadómsins þar sem nýlega hafi komið fram upplýsingar um að tveir dómendur Hæstaréttar í málinu hafi átt hlutabréf í Landsbankanum á því tímabili sem ákært var fyrir. Þeir kunni því að vera vanhæfir og það dragi úr fordæmisgildi dómsins.

Í úrskurði héraðsdóms segir að ekki verði leyst úr því hvort einhverjir dómenda Hæstaréttar kunni að vera vanhæfir, slíkt þurfi að gera með beiðni um endurupptöku Hæstaréttarmálsins.

Hafnar héraðsdómur því kröfu ákærðu um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins varðandi þetta álitaefni.

Jóhannes hafði einnig krafist þess að saksóknara í málinu yrði gerð réttarfarssekt vegna ummæla hans um að verjanda sinn að honum væri uppsigað við Hæstarétt og að verjandinn hefði viðhaft ómakleg og ómerkilega árás á Hæstarétt. Í úrskurði héraðsdóms segir að um þetta álitaefni verði fyrst leyst í endanlegum efnisdómi í málinu.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is
mbl.is