Snýr málinu við fyrir Vestfirðinga

Áformað er að gengið verði til samn­inga við lægst­bjóðanda á …
Áformað er að gengið verði til samn­inga við lægst­bjóðanda á fyrstu mánuðum árs­ins 2017. Fram­kvæmd­ir hefj­ist svo eft­ir mitt ár 2017 og taki um þrjú ár. Mynd/mbl.is

Það var sálrænt bakslag þegar tillagan um að setja ekki fjármuni í Dýrafjarðargöng kom í fjárlögum í byrjun desember. Aftur á móti virðist málefnið hafa náð eyrum Alþingsmanna sem nú hafa sett framkvæmdina á fjárlög eftir aðra umræðu sem kynnt var í dag. Það snýr málinu algjörlega við og það er gríðarlega ánægjulegt að þetta hafi farið í gegn. Þetta segir Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfjarða, í samtal við mbl.is.

Í byrjun janúar átti að opna átti útboðsgögn vegna málsins, en ef ekki kæmi til fjárheimildar í fjárlögum hefði þurft að fresta því.

Tengja saman suður- og norðurhlutann

Dýrafjarðargöng eiga að tengja saman Dýrafjörð og Arnarfjörð, en á milli fjarðanna er Hrafnseyrarheiði sem er ekki fær yfir vetrartímann og gera þannig heilsárstengingu milli suðurhluta og norðurhluta Vestfjarða.

Aðalsteinn segir að Vestfirðingar hafi talið að fjármagn lægi fyrir, en fyrr á árinu lagði innanríkisráðherra fram samgönguáætlun þar sem framkvæmdin var á dagskrá. Þá hafi verið gert ráð fyrir henni í ríkisfjármálaáætlun. Sem fyrr segir var hún hins vegar út af borðinu við fyrstu umræðu fjárlaga. „Við náðum svo fundi með þingmönnum 7. Desember og það var eindregin niðurstaða að ná þessu máli áfram á það stig sem það var í vor,“ segir Aðalsteinn.

Stórt fyrir Vestfirði

„Það er gríðarlega ánægjulegt að þetta hafi farið í gegn. Þetta er stórt fyrir Vestfirði og sérstaklega stórt fyrir sunnanverða Vestfirði,“ segir hann. Rifjar hann upp að áður fyrr hafi verið póstflug og siglingar á milli norðurs- og suðurhlutans. Þá hafi verið ágætis samgöngur miðað við aðra landshluta. Þegar það lagðist hins vegar af hafi Vestfirðir dottið aftur úr.

Mikilvægt fyrir ferðaþjónustu og fiskeldi

Með samgöngum gegnum Hrafnseyrarheiðina segir Aðalsteinn að einangrun verði rofin á svæðinu. Nefnir hann að það geri svæðið samkeppnishæfara vegna bættra samganga, sérstaklega með auknu fiskeldi og fjölgun ferðamanna. Segir hann að með nýjum heilsársvegi sem verði til með þessum göngum verði til nýr áfangastaður fyrir ferðamenn utan sumartímans þar sem hægt verði að keyra hringinn á Vestfjörðum.

Hann gerir ráð fyrir að hafist verði handa við göngin þegar snjóa leysir í vor og að verktími verði um 3 ár. Árið 2020 verði því göngin tilbúin ef allt gangi eftir. „Við erum búin að bíða eftir þessum verkefnum í 10 ár,“ segir Aðalsteinn og bætir við að þau hafi öll verið tilbúin á viðauka við samgönguáætlun fyrir hrunið. „Þetta hefur verið mjög löng bið og oft vonbrigði.“

Frétt mbl.is: Krefjast fjármagns í Dýrafjarðargöng

Frétt mbl.is: Hnika ekki frá Dýrafjarðargöngum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert