Björk lætur fjölmiðla heyra það

Björk Guðmundsdóttir er sá Íslendingur sem er þekktastur um allan …
Björk Guðmundsdóttir er sá Íslendingur sem er þekktastur um allan heim.

Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir lætur fjölmiðla heyra það á Facebook-síðu sinni í gær en tilefnið er gagnrýni sem hún fær ólíkt starfsbræðrum sínum. Krafa sé gerð um að konur tjái sig um tilfinningar sínar í tónlist sinni ólíkt körlum.

Um síðustu helgi kom Björk fram í tvígang á tónlistarhátíð í Texas og var Björk þar í hlutverki plötusnúðar og lék þar tónlist margra af hennar eftirlætistónlistarmönnum. Flestir aðrir sem komu fram á hátíðinni gerðu slíkt hið sama. Hún segist gera sér grein fyrir því að það er innan við ár síðan hún fór að koma fram sem plötusnúður og einhverjir séu enn að venjast því en sífellt fleiri aðdáendur hennar séu ánægðir með að hún deili með þeim tónlist sem hún er ánægð með.

En ekki allir, fjölmiðar og einhverjir hafa verið að fetta fingur við að hún kæmi sjálf fram og feldi sig bak við borð. En ekkert sé sagt um starfsbræður hennar sem það gerðu. „Og ég held að þetta sé kynjamisrétti,“ skrifar Björk og bætir við að það sé eitthvað sem hún sætti sig ekki við í lok þessa róstusama árs. Því allir eigi skilið að þetta breytist á þessum byltingarkenndu tímum sem við upplifum.

Að sögn Bjarkar mega tónlistarkonur vera söngvarar, textahöfundar sem syngja um unnusta sína. Ef þær breyta um umfjöllunarefni og fjalla um atóm, himinhvolfið, aktívisma, stærðfræði eða eitthvað annað en að syngja um þá sem þær elska, eru þær gagnrýndar. „Blaðamönnum finnst eins og það vanti eitthvað [...] eins og okkar eina tungumál séu tilfinningar...“

Björk hvetur til þess að árið 2017 verði árið sem þessu verði breytt og óskar öllum gleðilegra jóla í lokin á færslu sinni sem hægt er að lesa í fullri lengd hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert