Erfitt að knýja fram uppbyggilegt samtal

Kjarasamningar hafa verið lausir við Félag kennara og stjórnenda í …
Kjarasamningar hafa verið lausir við Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) mbl.is/Golli

„Erfitt hefur reynst að knýja fram uppbyggilegt samtal um sjálfsagðar og löngu tímabærar umbætur á kjarasamningnum.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT). Félagið hefur verið samningslaust í rúmt ár. Kjaradeilu FT og Sambands íslenskra sveitarfélaga var vísað til ríkissáttasemjara fyrr á árinu. Síðustu fundir hjá ríkissáttasemjara hafa verið árangurslausir. 

Hér er tilkynningin í heild sinni:

Að gefnu tilefni vill stjórn Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT), koma eftirfarandi á framfæri:  Í nýlegri frétt á mbl.is var haft eftir formanni samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS): „Staðan er ekki góð. Við finnum lítinn samningsvilja.“ 

Stjórn FT tekur heilshugar undir að staðan sé ekki góð, en lýsir að öðru leyti furðu sinni á þessum ummælum og vísar á bug aðdróttunum sem út úr þeim mætti lesa.

Félagið hefur verið samningslaust í tæpa 14 mánuði. Krafa félagsmanna er í senn hógvær og mjög einföld - að njóta samskonar launakjara, fyrir sambærilegt vinnuframlag og menntun, og viðmiðunarhópar innan Kennarasambands Íslands (KÍ). Hér er um að ræða sama meginmarkmið og lagt var upp með 2014, en samningur í kjölfar verkfalls það haust dugði því miður ekki til að uppfylla þessa meginkröfu, sem er m.a. að stórum hluta tilkomin vegna skekktrar samningsstöðu frá 2008.

Varðandi samningsvilja teljum við vandann miklu fremur liggja hjá viðsemjandanum, sem hefur ekki sýnt af sér merki um vilja til að mæta þessari meginkröfu, heldur virðist þvert á móti kappkosta að festa varanlega í sessi ómálefnalegan launamun.

Á því rúma ári sem viðræður hafa staðið yfir hefur SNS í þrígang lagt fram samhljóða tilboð, þrátt fyrir að frá upphafi hafi þeim mátt ljóst vera að tilboðið fól í sér að gera vonda stöðu FT, í samanburði við önnur aðildarfélög KÍ, enn verri.

Það bar svo til tíðinda s.l. fimmtudag að nánast sama tilboðið var enn lagt fram, nú með lítilsháttar breytingum sem snéru að kjörum kennara, en skólastjórnendur innan FT lágu áfram óbættir hjá garði.

Erfitt hefur reynst að knýja fram uppbyggilegt samtal um sjálfsagðar og löngu tímabærar umbætur á kjarasamningnum. Samninganefnd FT undirbyggði samningavinnuna með tilheyrandi könnunum, gagnaöflun, úrvinnslu, gerð samantekta o.fl. tengt faglegu efni og tölulegum gögnum. Margvísleg gögn hafa verið lögð fram sem nýta hefði mátt sem grundvöll málefnalegra viðræðna og heilt yfir í samningavinnu hefur félagið að leiðarljósi að taka mið af markmiðum og áherslum í kjarastefnu beggja aðila.

Með því að  vísa deilunni til sáttasemjara 27. apríl 2016 eftir 16 árangurslausa fundi, eygðum við þá von að framlögð gögn yrðu nýtt í markvissri vinnu að gerð kjarasamnings, en því miður hefur SNS hafnað umræðu um efni þeirra. Að sama skapi hefur verið lítið um framlagningu haldbærra gagna af hálfu SNS til stuðnings málflutningi þeim megin borðsins.

Fyrir hvatningu félagsmanna, sem finnst að sér vegið, er þessu hér með komið á framfæri. Stéttin hefur unnið að því hörðum höndum að ná fram þeirri sanngjörnu kröfu að launaþróun félagsmanna FT standist samanburð við launaþróun annarra hópa í Kennarasambandi Íslands. Félagsmönnum er full kunnugt um þá miklu vinnu sem hér hefur verið kostað til og eiga hlutdeild þar í.

SNS gerði út um leikinn í síðustu kjaraviðræðum með því að útvarpa þeim ósannindum að tónlistarskólakennarar krefðust hærri launa en leik- og grunnskólakennarar. Það er öllum ljóst að lítið stéttarfélag hefur ekki úr mörgum leikjum að tefla ef stærri aðilinn ákveður að nota yfirburði sína með þessum hætti.

Virðingarfyllst - f.h. kennara og stjórnenda í tónlistarskólum út um land allt.

Dagrún Hjartardóttir, starfandi formaður FT

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert