Hafði litla möguleika á að krefjast svara

Alda Hrönn Jóhannsdóttir braut ekki lög við rannsókn LÖKE-málsins að …
Alda Hrönn Jóhannsdóttir braut ekki lög við rannsókn LÖKE-málsins að mati setts héraðssaksóknara. Garðar Steinn Ólafssonar, lögmaður sakborninga í málinu gagnrýnir að rannsókn setts héraðssaksóknara hafi verið mjög takmörkuð. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Garðar Steinn Ólafssonar, lögmaður lögreglumannsins Gunnar Scheving Thorsteinsson og starfsmanns Nova, telur að sú rannsókn á kærum gagnvart Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, yfirlögfræðingi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem Lúðvík Bergvinsson, settur héraðssaksóknari í LÖKE-málinu svonefnda, fékk að lokum framkvæmda í sínu nafni hafi verið mjög takmörkuð.

„Settum héraðssaksóknara gekk erfiðlega að fá lögreglumenn til að rannsaka málið eins og hann segir í ákvörðun sinni og það má berlega sjá það af niðurstöðu að lögreglan vill málið burt,“ segir hann

Garðar Steinn segir Lúðvík í rannsókn sinni alls ekki hafa komist að þeirri niðurstöðu að rannsókn lögreglu á Suðurnesjum hafi verið réttmæt, lögleg eða byggð á raunverulegum rökstuddum gruni.

„Málum var einfaldlega þannig háttað að  settur héraðssaksóknari gat ekki, við þá mýflugurannsókn sem honum var leyft að framkvæma, fengið nein gögn um hver bar ábyrgð á fyrirmælum sem lágu að baki framferði lögreglu- og ákæruvalds í málinu sem duga til að sakfella Öldu Hrönn Jóhannsdóttur aðallögfræðing lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Garðar Steinn. 

Gunnar og starfsmaður Nova, kærðu Öldu Hrönn fyr­ir að hafa mis­farið með lög­reglu­vald við rann­sókn hins svo­kallaða LÖKE-máls. Greint var frá því í gær að málið hefði verið fellt niður, þar sem settur héraðssaksóknari taldi það ekki lík­legt til sak­fell­is.

Þurfti ekki að svara fyrir misræmi gagna og frásagna

Garðar Steinn segir athyglisvert að bera saman rannsóknir gagnvart æðstu yfirmönnum stjórnsýslu og þeim rannsóknaraðgerðum sem þykja réttlætanlegar gagnvart almennum borgurum. „Þegar sérstakur saksóknari rannsakaði meint brot bankamanna þá kallaði hann ekki eftir gögnum frá bönkunum, samþykkti þau svör að ekkert hefði verið skrásett og lét svo málið niður falla eftir eina kurteislega skýrslutöku með sakborningi,“ segir hann. Slík rannsóknaraðferð virðist hins vegar tíðkast gagnvart yfirmönnum stjórnsýslunnar.

Garðar Steinn segir Lúðvík í rannsókn sinni alls ekki hafa …
Garðar Steinn segir Lúðvík í rannsókn sinni alls ekki hafa komist að þeirri niðurstöðu að rannsókn lögreglu á Suðurnesjum hafi verið réttmæt, lögleg eða byggð á raunverulegum rökstuddum gruni. AFP

Garðar Steinn bendir á að Alda Hrönn hafi bara þurft að mæta í eina skýrslutöku og að eigin hentugleik. Þá hafi ekki verið gengið á hana um misræmi milli gagna, frásagnar hennar og frásagna þeirra sem reyndu að réttlæta verk hennar eftir á. „Sá lögreglumaður sem fékkst til rannsóknarinnar virðist ekki hafa borið misræmi milli fullyrðinga vitna og sakbornings upp á vitni eða sakborning,“ segir hann. 

Í ákvörðun setts héraðssak­sókn­ara kem­ur fram að við rann­sókn máls­ins hafi m.a. verið tek­in skýrsla af Öldu Hrönn auk þess sem upp­lýs­inga­skýrsl­ur hafi verið tekn­ar af lög­reglu­mönn­um hjá embætt­um lög­reglu­stjór­ans á höfuðborg­ar­svæðinu og lög­reglu­stjór­ans á Suður­nesj­um. Ýmissa fleiri gagna var aflað s.s. frá Héraðsdómi Reykja­ness vegna aðgerða lög­reglu á rann­sókn­arstigi máls­ins.

Ákveðið að halda leynd um málið

Garðar Steinn segir að svo virðist sem  settur héraðssaksóknari hafi ekki haft raunhæfa möguleika á að krefjast þess að svarað sé fyrir hvers vegna rannsóknaraðgerðir voru ekki skrásettar eða hver bar ábyrgð á þeim.

Fram kemur í ákvörðun setts héraðssaksóknara að tak­markaðar upp­lýs­ing­ar lágu fyr­ir um rann­sókn­ina á þess­um tíma þar sem skrif­leg gögn voru af skorn­um skammti, bæði hvað varðaði rann­sókna sjálfa og sam­skipti rík­is­sak­sókn­ara við lög­regl­una á Suður­nesj­um varðandi heim­ild­ir og rann­sókn­ar­fyr­ir­mæli.

„Svo virðist sem lögreglan á Suðurnesjum hafi  verið beðin um að afhenda gögn um rannsókn sína, en svör þeirra hafi verið á þá leið að ákveðið hafi verið að halda leynd um málið  og þannig hafi ekkert verið skrásett hjá embættinu,“ segir Garðar Steinn.

Fram hefur komið að upp­lýs­ing­ar um fram­vindu rann­sókn­ar máls­ins voru ekki skráðar í LÖKE-kerfi lög­reglu fyrr en þann 3. apríl 2014 af rík­is­sak­sókn­ara. Rann­sókn­in var held­ur ekki skráð í skrán­ing­ar­kerfi lög­regl­unn­ar á Suður­nesj­um.

„Þetta svar var tekið gilt án þess að gerð hafi verið tilraun að spyrja rannsóknarlögreglumenn um það í skýrslutökum hver hafi gefið þeim fyrirmæli um að skrásetja ekkert og halda ekki rannsóknarskýrslur á meðan rannsókn án heimildar fór fram,“ segir hann.

Dregur í efa að aðstoðarlögreglustjóra skorti boðvald 

Garðar Steinn gagnrýnir einnig að Alda Hrönn hafi getað nýtt skipurit embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum til að sýna að hún hafi ekki haft boðvald yfir lögreglumönnunum, en sú skýring hafi verið gefin upp sem ein af ástæðum þess að ekki hafi verið hægt að sanna að rannsóknin hafi verið á ábyrgð Öldu Hrannar.

Hann kveðst draga í efa að aðstoðarlögreglustjóri hafi ekki boðvald yfir undirmönnum sínum sem staðgengill lögreglustjóra og telur víst að formlegt skipunarbréf Öldu Hrannar kveði á um að hún hafi haft slíkt vald. „ Alda Hrönn virðist ekki hafa þurft að svara fyrir þessa ótrúlegu fullyrðingu með neinum hætti eða útskýra hvers vegna undirmenn hlýddu henni engu að síður,“ segir hann.

Ódagsett minnisblað um að Alda Hrönn hafi fengið heimild ríkissaksóknara til rannsóknarinnar hafi sömuleiðis verið tekið trúanlegt, þrátt fyrir að hafa ekki ekki legið fyrir í gögnum málsins á þeim degi sem það er sagt vera skrifað. Það hafi raunar ekki komið fram fyrr fyrir lá að fram færi opinber rannsókn á hvernig þrír menn sættu ásökunum fyrir brot sem aldrei áttu sér stað. Sjálfur telur hann að í það minnsta hefði átt að boða til skýrslutöku þann sem minnisblaðið skrifaði.

„Það er ekki nema von að settur héraðssaksóknari telji málið ekki líklegt til sakfellingar. Ef rannsókn í sakamálum væri almennt svo háð samþykki sakbornings og vina hans um gagnaöflun væri aldrei sakfellt í nokkru máli hér á landi,“ segir hann og kveður þetta vekja alvarlegar áhyggjur af eftirliti með ákæru- og lögregluvaldi á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert