Hagkvæmni nýs spítala nemi 100 milljörðum

Landspítalinn við Hringbraut. Á hann að vera eða fara?
Landspítalinn við Hringbraut. Á hann að vera eða fara? mbl.is/Ómar

„Hagkvæmni þess að byggja nýjan spítala á besta stað á höfuðborgarsvæðinu hefur verið metin á um 100 milljarða kr. á núvirði, umfram þær viðbyggingar og endurbyggingar við Hringbraut sem nú eru í farvatninu.“

Svo segir í tillögu, sem Samtök um betri spítala á betri stað hafa sent fjárlaganefnd. Er þar lagt til að gerð verði „fagleg staðarvalsgreining fyrir nýja Landspítalann, ásamt rökstuðningi.“

Fram kemur að óumdeilt sé að nýr spítali á góðum stað verði betri spítali en „bútasaumaður Hringbrautarspítali ,vegna betri högunar og staðsetningar sem skiptir miklu vegna 9000 ferða á spítalann á sólarhring í fyrstu, þar af 100-200 ferðir sjúkrabíla, sumar akút,“ eins og segir í tillögunni.

Í núverandi áætlun sé þá gert ráð fyrir að fjöldi sjúkrarúma verði sambærilegur fyrir og eftir breytingar.   

Gerð verði „fagleg staðarvalsgreining“

„En eftirspurn eftir þjónustu Landspítalans eykst um 1,7% á ári. Eftir um 15 ár, þegar nýr spítali við Hringbraut væri að koma í gagnið, þyrfti hann að vera um 200 sjúkrarúmum stærri en núverandi áætlanir gera ráð fyrir.“

Þá er vísað í könnun sem gerð var fyrir samtökin, þar sem fram komi að 70% landsmanna vilji ekki uppbyggingu við Hringbraut.

„SBSBS vilja að gerð verði fagleg staðarvalsgreining til að finna besta staðinn.  Það er hægt að vinna slíka greiningu á nokkrum mánuðum á fyrriparti næsta árs án truflunar fyrir núverandi ferli við Hringbraut, ef niðurstaðan verður að halda þar áfram.“

Undir þetta skrifa tólf stjórnarmeðlimir samtakanna, þar af þrír arkitektar og þrír læknar Landspítalans.

mbl.is