Byssubróðir í varðhaldi fram á næsta ár

Frá aðgerðum lögreglu í Breiðholti þegar árásin átti sér stað.
Frá aðgerðum lögreglu í Breiðholti þegar árásin átti sér stað. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Annar byssubróðirinn sem ákærður hefur verið fyrir að hafa skotið úr haglabyssu við söluturn í Fellahverfi í Breiðholti í ágúst, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í mars og ólögmæta nauðung í júlí þarf að sitja áfram í gæsluvarðhaldi yfir hátíðir og fram til 19. janúar. Hæstiréttur staðfesti dóm þess efnis í dag, en bróðirinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því 6. ágúst.

Bræðurnir hafa verið ákærðir í tveimur málum af héraðssaksóknara, en í úrskurði héraðsdóms frá í gær um áframhaldandi gæsluvarðhald kemur fram að bróðirinn hafi beint haglabyssu að konu sem sat í bíl og skotið með afsagaðri haglabyssu af um 10 metra færi sem hæfði hurð og hliðarrúðu bifreiðarinnar að framanverðu þar sem konan sat.

Við skotið brotnaði hliðarrúðan og fékk konan yfir sig glerbrot og hlaut af því minniháttar skurði. Í bílnum sat einnig ökumaður bifreiðarinnar. Telur héraðssaksóknari að með þessari háttsemi hafi bróðirinn stefnt lífi og heilsu beggja í stórfelldan háska á ófyrirleitin hátt.

Vísað er í skýrslu prófessors í vélaverkfræði um hættueiginleika afsagaðrar haglabyssu sem notuð var í umrætt sinn. Í skýrslunni komi m.a. fram að hagldrífan eða kjarni hennar sem hafi að megninu til lent á hurð bifreiðarinnar hægra megin hafi verið um 0,5 metra frá höfði konunnar sem var í bifreiðinni og dreifing haglanna verið það lítil að hefðu höglin hafnað 0,5 metra ofar hefðu þau öll hæft höfuð konunnar sem var í bifreiðinni.

Við mat á háttseminni segir héraðssaksóknari að bæði hafi verið skotið af byssunni í miðri íbúðabyggð þar sem fjöldi fólks var á ferli og þá geti tilraun til manndráps varðað allt að ævilöngu fangelsi, hættubrot geti varðað allt að 4 ára fangelsi en stórfelld eða margítrekuð vopnalagabrot geta varðað allt að 6 ára fangelsi.

Hafi bróðirinn kannast við hjá lögreglu að hafa skotið af byssunni en ekki ætlað að drepa neinn.

Mátu bæði héraðsdómur og Hæstiréttur því að rétt væri að maðurinn skyldi sæta gæsluvarðhaldi áfram þangað til dómur fellur í máli hans, en ekki lengur en til 19. janúar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert