Ekki staðið við loforð um íbúðir

mbl.is/Ómar

Stjórnvöld hafa ekki staðið við skuldbindingar um uppbyggingu íbúða í almenna íbúðakerfinu og ekki er útlit fyrir að bót verði á því á næsta ári að sögn forseta Alþýðusambands Íslands.  

„Stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að byggja 2.300 íbúðir í almenna íbúðakerfinu. Á árinu 2016 átti að byggja 500 íbúðir og 600 á ári á komandi árum. Í fjáraukalögum þessa árs er uppbygging 450 íbúða tryggð en á næsta ári er ekki fjármagn nema til að byggja í mesta lagi 300 af þeim 600 sem var lofað,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

„Við erum með þetta sem forsendu í kjarasamningi í febrúar og það sætir furðu að það sé hvorki inni í ríkisfjármálaáætlun né fjárlögum fjármagn fyrir skuldbindingar.“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, furðar sig á því að stjórnvöld …
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, furðar sig á því að stjórnvöld ætli ekki að standa við skuldbindingar. Ernir Eyjólfsson

Gylfi segir það ánægjuefni að afgreiðsla fjárlaga hafi tekist í ljósi óvissunnar og að sátt hafi náðst um að setja meiri fjármuni í mennta-og heilbrigðiskerfið. Aftur á móti sé ekki tímabært að ráðast í viðamiklar innviðaframkvæmdir vegna þensluáhrifa en stofnanir ættu þó að hefja undirbúning til að geta brugðist hratt við breyttum aðstæðum. 

„Alþýðusambandið varaði við því að ekki sé skynsamlegt að bæta mikið í framkvæmdir í landinu við þessar aðstæður í efnahagslífinu þrátt fyrir mikla þörf á innviðafjárfestingu,“ segir Gylfi. „Hinsvegar er mikilvægt að hanna og umhverfismeta verkefni til að hafa þau tilbúin.“

Hann segir að stjórnvöld og stofnanir hafi ekki verið í stakk búin til að ráðast í framkvæmdir eftir kreppu.

„Þegar við vorum að vinna úr afleiðingum kreppunnar og samkomulag var um fjármögnun á býsna stórum tölum í stöðugleikasáttmálanum í júlí 2009 þar sem lífeyrissjóðirnir ætluðu að fara í samstarf við stjórnvöld og fjármagna bæði spítala, brúargerð og fleira þá voru engin verkefni tilbúin vegna þess að skipulagferlið er mjög langt. Við höfum sagt að Vegagerðin og Sveitarfélögin þurfi að sinna þessari skyldu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert