Spáð vonskuveðri á morgun

Allt útlit er fyrir að veður versni fljótlega í fyrramálið með ofankomu og hvössum vindi, fyrst austanátt, en síðar norðaustan átt. Snarpar hviður um tíma á milli 8 og hádegis í Öræfum og Skeiðarársandi.

Spáð er hríð og skafrenningi meira og minna um norðan- og austanvert landið á morgun en krapa við sjávarsíðuna. Gert er ráð fyrir 13-18 m/s og þegar líður á daginn eykst vindurinn og er spáð norðaustan 20-23 m/s á Vestfjörðum.

Austanlands hvessir enn frekar með norðanátt og hláku á láglendi. Éljamugga verður yfir Hellisheiðinni á morgun og um kvöldmatarleytið hvessir með skafrenningi og lélegu skyggni, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Það er hálka eða snjóþekja víða á vegum á Suðurlandi og þungfært er á nokkrum vegum í uppsveitum og útvegum. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og á Suðurnesjum.

Á Vesturlandi er hálka og snjóþekja á flestum leiðum. Á Vestfjörðum er hálka, snjóþekja eða þæfingur og víða él eða snjókoma.  Ófært er á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.

Það er snjóþekja eða hálka á flestum leiðum á Norðurlandi og snjókoma og éljagangur víðast hvar. Snjóþekja og skafrenningur er á Mývatns- Möðrudalsöræfum.

Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru á Austurlandi en þæfingsfærð og skafrenningur er á Fjarðarheiði og Vatnsskarði eystra. Ófært er um Öxi og Breiðdalsheiði.

Hálka eða hálkublettir eru með suðausturströndinni og nokkuð hvasst.

Þjónusta Vegagerðarinnar um jól og áramót

 Á aðfangadag verður sími 1777 opinn frá kl. 6:30 til kl. 13 og á jóladag frá kl. 10 til kl. 12.

Á annan í jólum er þjónustan venjubundin og opið í síma 1777 fyrir upplýsingar um veður og færð frá 06:30 til 22.00.

Á gamlársdag verður sími 1777 opinn frá kl. 6:30 til kl. 13 og á nýársdag frá kl. 10 til kl. 12.

mbl.is