Hjóla frá Kaupmannahöfn til Parísar

Ásta Birna, Lárus Frans, Viðar og Guðbjörg í skemmtigarði við …
Ásta Birna, Lárus Frans, Viðar og Guðbjörg í skemmtigarði við komuna til Parísar í fyrra.

Í júlí á næsta ári ætla um 34 íslenskir hjólarar að taka þátt í Rynkeby hjólamótinu þar sem hjólað er frá Kaupmannahöfn í Danmörku til Parísar í Frakklandi. Þetta er í fyrsta skiptið sem íslensk lið tekur þátt í mótinu sem nú er haldið í 16. skipti. Gert er ráð fyrir að fjöldi hjólreiðamanna sem fari leiðina í ár verði um 2.000, en árið 2002 þegar fyrst var farið voru aðeins 11 manns sem tóku þátt.

Viðar Einarsson og eiginkona hans Guðbjörg Þórðardóttir hafa veg og vanda af þátttöku íslenska liðsins ásamt hjónunum Lárus Frans Guðmundssyni og Ástu Birnu Ragnarsdóttur. Þau síðarnefndu búa í Danmörku og létu Viðar og Guðbjörgu, sem búa á Íslandi, vita af mótinu fyrir tveimur árum síðan. Fóru þau þá að skoða leiðir til að koma að íslensku liði og taka þátt.

Þrenns konar tilgangur með ferðinni

Viðar segir í samtali við mbl.is að réttast væri þó að tala um mótið sem hjólaferðalag. Ekki sé keppt um að koma fyrstur í mark, heldur leggja þátttakendur í sama liði af stað á sama tíma og svo koma öll lið í mark á sama tíma í París. Lið frá öllum Norðurlöndunum taka þátt og koma þau hjólandi flest frá sinni heimabyggð að sögn Viðars. Svo stilla þau sig af þannig að endadagurinn sé tekinn sameiginlega.

Tilgangur mótsins er þrennskonar að sögn Viðars. Í fyrsta lagi að safna sem mestum peningum til styrktar krabbameinssjúkum börnum, í öðru lagi að fá þátttakendur til að koma sér í gott form og í þriðja lagi að komast  til Parísar, vera saman og skemmta sér.

Fjöldi þátttakenda í Rynkeby hjólamótinu í fyrra.
Fjöldi þátttakenda í Rynkeby hjólamótinu í fyrra.

Hugmyndin kom upp á jólagleði

Hugmyndin að þessu hjólaævintýri byrjaði sem fyrr segir árið 2002. „Þetta byrjaði eins og margt annað gott í Danmörku með smá fylleríi,“ segir Viðar og bætir við að einn starfsmaður djúsframleiðandans Rynkeby hafi stuttu fyrir jólin fengið aðvörun frá lækni um að hann þyrfti að hætta að reykja eða vera duglegri að hreyfa sig. „Eins og sönnum Dana datt honum ekki í hug að hætta að reykja,“ segir Viðar hlægjandi, heldur hafi hann viðrað hugmynd sína um langa hjólaferð í jólagleði fyrirtækisins.

Þar hafi samstarfsmönnum hans litist vel á hugmyndina og starfsmaðurinn gekk síðar á fund framkvæmdastjórans og spurði hvort fyrirtækið myndi styrkja starfsmenn í að hjóla niður til Parísar til að fylgjast með Tour de France. Framkvæmdastjórinn tók hann á orðinu og sagði að ef hann myndi ná saman 10 starfsmönnum myndi fyrirtækið styrkja þá til ferðarinnar. Það tókst og fyrsta árið fóru 11 starfsmenn.

Úr 11 í 2.000 þátttakendur

Þegar heim var komið kom í ljós að afgangur var úr ferðasjóðnum og var ákveðið að gefa hann til barnakrabbameinsdeildar sjúkrahússins í Árósum. Ferðin þótti heppnast vel og hugmyndin um að láta gott af sér leiða vakti lukku og voru starfsmennirnir hvattir til að fara á ný. Þannig varð til þessi hefð sem hefur sannarlega undið upp á sig. Lið víða að byrjuðu að skrá sig og síðast voru meira en 1.500 hjólarar sem tóku þátt. Núna á næsta ári eru sem fyrr segir um 2.000 hjólarar skráðir til leiks í 44 liðum. Á þessu ári söfnuðu lið í mótinu samtals 1.100 milljónum til stuðnings krabbameinssjúkum börnum.

Viðar og Lárus tóku þátt í fyrra með erlendu liði …
Viðar og Lárus tóku þátt í fyrra með erlendu liði til að þekkja inn á fyrirkomulagið í ár þegar íslenskt lið tekur í fyrsta skipti þátt. Mynd/Viðar Einarsson

Viðar segir að íslenska liðið ætli að hefja leik í Kaupmannahöfn og hjóla þaðan. Um er að ræða 1.300 kílómetra leið og verður hún farin á 8 dögum. Það gera um 150 til 200 kílómetra dagleiðir að sögn Viðars. Í íslenska liðinu verða 34 á hjóli og allt að átta manns sem fylgja liðinu í nokkrum bílum.

Æfingar komnar á fullt

Þegar hjónin tvö fóru að forvitnast um að taka þátt í fyrra var þeim sagt að ekkert íslenskt lið hefði áður tekið þátt einfaldlega vegna þess að enginn hefði áður óskað eftir þátttöku. Það væri hins vegar hið besta mál að bæta við íslensku liði. Þeir Frans og Viðar voru aftur á móti beðnir um að taka þátt með öðru liði það ár til að þekkja inn á fyrirkomulagið fyrir ferðalagið í ár.

Æfingar eru þegar hafnar hjá liðinu að sögn Viðars og var byrjað strax í haust. Hver og einn æfir sig yfir veturinn, en liðið hittist líka einu sinni í viku í spinning tíma.Viðar segir að í vor verði svo stífari æfingar sem muni halda áfram allt sumarið, en 8. júlí hefst svo ferðalagið frá Kaupmannahöfn.

Liðið er þegar byrjað að safna styrkjum, en Viðar segir að það sé einn stærsti hlutinn af því að taka þátt í svona keppni. Allt það sem safnast mun renna til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna hér á landi, en Viðar segir að samkvæmt skipuleggjendum keppninnar sé skilyrði að söfnunarféð renni í viðlíka starfsemi.

Fá götuhjól og búninga frá Rynkeby

Það kostar um 18 þúsund danskar krónur að taka þátt í mótinu, eða sem nemur tæplega 300 þúsund íslenskum krónum. Viðar segir að það verði allt borgað af þátttakendum sjálfum, en á móti útvegi Rynkeby hverjum og einum þátttakenda nýtt götuhjól (e. racer) sem og búning, en allir 2.000 hjólararnir sem taka þátt verða í eins búning.

Viðar segir að mikil spenna sé hjá liðinu fyrir að taka þátt og að andinn sé eins og á best verði kosið. Þá segir hann form þátttakenda fara stigvaxandi. Þannig hafi hann ekki neinar áhyggjur af því að einhver skili sér ekki á leiðarenda. „Þetta er í raun ekki keppni heldur keppni um að allir komist áfram,“ segir Viðar.

Heimasíða íslenska Rynkeby-liðsins, en einnig er hægt að fylgjast með liðinu á Facebook-síðu þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert