Spiluðu til góðs fyrir utan Hagkaup

mynd/Skjáskot

Rúm milljón safnaðist til Mæðrastyrksnefndar síðustu dagana fyrir jól fyrir utan Hagkaup í Smáralind. Fyrir framan verslunina var komið fyrir píanói og fyrir hvern gest sem spilaði lag á píanóið lætur Hagkaup 5.000 krónur renna til Mæðrastyrksnefndar. Í tilkynningu kemur fram að alls hafi 212 spilað á píanóið og mun því Hagkaup styrkja Mæðrastyrksnefnd um 1.060.000 krónur með þessu skemmtilega uppátæki.

Eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi létu gestir Smáralindar ekki á sér standa og er óhætt að segja að jólastemningin hafi verið allsráðandi við píanóið þar sem sumir píanósnillingarnir létu sér ekki nægja að spila eitt lag heldur héldu litla tónleika með syrpu jólalaga.


  

mbl.is