Sjúkraflug komst ekki til Reykjavíkur

Frá lendingu á neyðarbrautinni.
Frá lendingu á neyðarbrautinni. mbl.is/Rax

Sjúkraflugvél með sjúkling frá Höfn í Hornafirði gat ekki lent á Reykjavíkurflugvelli þar sem neyðarflugbraut 24 er lokuð fyrir flugumferð og þurfti því að fljúga með hann á sjúkrahúsið á Akureyri.  

Flugvélin gat hvorki lent á Reykjavíkurflugvelli né í Keflavík vegna mikils SV-hvassviðris. Sjúklingurinn er nú á Akureyri. Ekki fengust upplýsingar um hvort reynt verði að fljúga með hann á Landspítalann í Reykjavík þegar lægir né hvernig líðan hans er. Útkallið var í fyrsta forgangi og hefði sjúklingurinn þurft að komst undir læknishendur á LSH.       

„Þetta er í fyrsta skipti sem neyðarbrautin lokast allan daginn vegna þessarar vindáttar. Þetta er grafalvarlegt. Okkur gremst að þetta skuli gerast því við höfum alltaf bent á að í þessari vindátt þarf neyðarbrautin að vera opin fyrir sjúkraflugi,“ segir Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, við mbl.is. Hann bendir á að eina í stöðunni sé að Alþingi grípi til aðgerða og opni brautina.     

„Alvarleg mistök með því að loka neyðarbrautinni“

Stjórn Flugmálafélag Íslands sendi frá sér tilkynningu vegna stöðunnar. „Ljóst er að varnaðarorð flugstjóra og sérfræðinga í flugmálum áttu við full rök að styðjast og að stjórnmálamenn hafa gert alvarleg mistök með því að loka neyðarbrautinni.
Nú skiptir miklu máli að bregðast hratt við,“ segir í tilkynningunni.

Skorað er á stjórnvöld að opna brautina á ný og jafnframt er krafist aðgerða tafarlaust „áður en það verður um seinan og án þess að það hafi þá kostað mannslíf.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert