Skipulag og mæting lykillinn að velgengni

Hluti þeirra nemenda sem fengu verðlaun við útskrift frá Tækniskólanum. …
Hluti þeirra nemenda sem fengu verðlaun við útskrift frá Tækniskólanum. Haraldur er í fremstu röð, sá þriðji frá hægri. Mynd/ Facebook-síða Tækniskólans

Haraldur Örn Arnarsson er dúx Tækniskólans á haustönn 2016 en hann útskrifaðist frá skólanum með einkunnina 9,73 úr grafískri miðlun. Haraldur stefnir á að ljúka sveinsprófi í vor en hann er kominn með samning hjá prentsmiðjunni Odda. 

Frétt mbl.is: Dúx Tækniskólans með 9,73

„Það er nú bara skipulag, mæting og að skila verkefnum,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is, spurður um lykilinn að velgengninni. Hann segir lokapróf þó ekki vera sína sterkustu hlið en hann er hlynntur frekara símati og hentar honum vel að skila verkefnum. „Prófin eru svona kannski veikleiki minn má segja,“ segir Haraldur en það kom svo sannarlega ekki að sök í þetta sinn enda námið mikils til byggt á símati. 

Skemmtilegra en almennt bóknám

„Þetta er búið að vera tveggja ára nám, eitt ár í grunni og eitt nám í sérnámi,“ útskýrir Haraldur en hann hóf nám við Tækniskólann um áramótin 2014-2015.

Haraldur Örn ásamt Andreu Jónsdóttur, semidúx sem útskrifaðist af sömu …
Haraldur Örn ásamt Andreu Jónsdóttur, semidúx sem útskrifaðist af sömu braut. Mynd/Helga Tómasdóttir

Áður hafði hann lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund en hann segir námið í grafískri miðlun höfða miklu betur til sín og þykir það skemmtilegra en almennt bóknám.

„Ég er búinn að fá samning hjá prentsmiðjunni Odda þannig að leið mín liggur þangað eftir áramót,“ segir Haraldur. Hann hefur störf 2. janúar og kveðst hann mjög spenntur að byrja og vonast til að geta haldið þar áfram störfum að loknu sveinsprófi.

„Þetta er skemmtilegra nám myndi ég segja, fellur betur að mínu áhugasviði. Ef maður hugsar meira út í framtíðana þá kannski mun maður taka meistaragráðu í þessu fagi, ég hef allavega það mikinn áhuga á þessu,“ segir dúxinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert