Hátíðarmessan í beinni í gegnum netið

Kirkjan að Brekku í Mjóafirði.
Kirkjan að Brekku í Mjóafirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við ætlum að reyna að vera svolítið nútímalegir þar sem veðrið er ekki með okkur í liði. Þetta er algjör tilraun og verður send út á netinu,“ segir Sigurður Rúnar Ragnarsson, sóknarprestur í Neskaupstað, sem mun senda Mjófirðingum hátíðarmessuna í ár í gegnum netið. Messan hefst klukkan 15:00 í dag en messað verður í Norðfjarðarkirkju. 

Séra Sigurður Rúnar Ragnarsson, sóknarprestur í Neskaupstað,
Séra Sigurður Rúnar Ragnarsson, sóknarprestur í Neskaupstað, mbl.is

Illfært hefur verið til Mjóafjarðar vegna veðurs og hefur Sigurður ekki komist í Mjóafjarðarkirkju til að messa. „Mjófirðingar settu fyrirvara á það hvort ég gæti verið nægilega persónulegur en ég held að ég tali þannig í ræðunni að ég ætti að ná þeim hughrifum sem mér hefur yfirleitt tekist,“ segir Sigurður og vonar að íbúar Mjóafjarðar verði sáttir og ánægðir með það að verið sé að nýta tæknina sem varadekk fyrir messuhöld. „Við erum vön að koma til þeirra og viljum auðvitað halda því áfram en þetta er varadekk sem hægt er að nýta ef þannig stendur á.“

Fólk getur því fylgst með messunni í gegnum netið HÉR. „Fólk getur horft á þetta heima hjá sér og notið þess að láta fara vel um sig, ekki á hörðum kirkjubekkjum. Það er verkefni kirkjunnar á ná til fólksins og því gerum við þetta svona í ár,“ segir Sigurður að lokum.

mbl.is