Óvíst hvort fundað verði fyrir áramót

Óttarr Proppé greiðir atkvæði í alþingiskosningum.
Óttarr Proppé greiðir atkvæði í alþingiskosningum. Eggert Jóhannesson

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar segir að hann og formenn Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar hafi verið í samskiptum undanfarna daga. Fundarhöld hafi verið í gær þó ekki hafi formennirnir hist allir í einu. Verið sé að fara yfir málefnin. Hann segir aðspurður að sjávarútvegsmál séu ekki helsti ásteytingarsteinninn. Heldur sé „heildarpakkinn“ það sem þurfi að ganga upp svo hægt verði að mynda stjórn

Hann segir ljóst að menn séu að miðla málum að einhverju leyti en vill ekkert segja til um það hvort líklegt sé að það muni duga til. Spurður segir hann að samræður snúi eingöngu að málefnunum. Ekki sé horft til þess að taka aðra flokka inn í hugsanlegt samstarf. „Við erum enn á þeim stað að skoða það hvort að ástæða sé fyrir þessa flokka að fara í stjórnarmyndundarviðræður,“ segir Óttarr.

Margt búið að reyna 

Þingflokkur Bjartrar framtíðar fundaði í gær. Spurður hvort að einhugur sé innan flokksins um það að hentugast sé að kanna kost á DAC stjórn þá segir Óttarr: „Það er kannski aldrei algjör einhugur um svona hluti en það er margt búið að reyna á þessum tveimur mánuðum sem liðið hafa frá kosningum,“ segir Óttarr.

Aðspurður segist hann ekkert vilja segja til um það hvort formennirnir muni funda fyrir áramót. „Við höfum ekki sett okkur nein tímamörk enda hefur ekki gefist vel að setja sér einhver sérstök mörk í þessum efnum hingað til,“ segir Óttarr.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert