Flugeldasala hefur gengið vel hjá björgunarsveitum Slysavarnarfélagsins Landsbjörgu undanfarna daga. Stóri dagurinn er samt á morgun þegar langflestir versla sér flugelda.
„Ég heyrði í mönnum í dag og þeir voru almennt ánægðir,“ segir Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Hann bætti við að salan í dag hafi verið svipuð og fyrir einu ári síðan.
„Svo er stóri, stóri dagurinn á morgun og þá gerast ævintýrin“, sagði Þorsteinn.
„Gamlársdagurinn er langstærsti dagurinn í sölunni hjá okkur og miðað við veðurspána verður þetta, held ég, stórkostlegt gamlárskvöld.“