Flugeldar fluttir til landsins í 45 gámum

Borgarbúar geta sótt brennur á tíu stöðum í Reykjavík. Notast …
Borgarbúar geta sótt brennur á tíu stöðum í Reykjavík. Notast er við 2.300 lítar af olíu á áramótabrennur í borginni. mbl.is/Golli

Áramótabrennur og flugeldar draga að ferðamenn um áramótin og ef að líkum lætur verða um tvö þúsund þeirra viðstaddir brennur á höfuðborgarsvæðinu í skipulögðum ferðum ferðaþjónustufyrirtækja.

Gera má ráð fyrir því að þeir kynnist vel skotgleði landans því 662 tonn af flugeldum voru flutt til landsins fyrir áramótin og er það 118 tonnum meira en flutt var inn árið 2015, að því er segir í grein í  Morgunblaðinu í morgun.

Sala flugelda hefur farið vel af stað og var um miðjan dag í gær svipuð og um sama leyti í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg. Það þykir gott ef miðað er við veðurham undanfarinna daga. Samkvæmt upplýsingum frá Eimskip má gróflega áætla að þurft hafi 45 fjörutíu feta gáma til þess að koma flugeldunum til landsins.

Góð sala þrátt fyrir veðurham

Björgunarsveitirnar eru alla jafna með 70-80% af heildarsölu flugelda. Elvar Jónsson hjá Hjálparsveit skáta í Garðabæ segir svipaðar sölutölur það sem af er góðar fréttir fyrir björgunarsveitina. „Ég bjóst við því að þetta myndi fara hægar af stað vegna veðurs og veðurspár undanfarna daga, en við erum rétt yfir því sem við höfðum selt á sama tíma í fyrra,“ segir Elvar

Til stendur að banna öflugustu terturnar vegna reglugerðar ESB á næsta ári. Elvar sagði um miðjan dag í gær að enn sem komið er hefði ekki verið meiri ásókn í að kaupa þær en fyrri ár.

Að sögn Elvars verður björgunarsveitin vör við meiri samkeppni nú en áður. „Hún er meiri nú en hún var fyrir nokkrum árum. Þetta hefur marktæk áhrif á söluna hjá okkur. Það er vissulega gott að hafa samkeppni í þessu eins og öðru en við verðum að treysta því að hún sé heiðarleg,“ segir Elvar.

Hinar sívinsælu áramótabrennur fara fram á tíu stöðum í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum á vef Reykjavíkurborgar verður boðið upp á fjórar stórar brennur en sex litlar brennur. Guðmundur Vignir Óskarsson, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg, segir að lítil brenna sé skilgreind sem svo að hún hafi efnivið í að loga glatt í tvær klukkustundir en stórar í fjórar klukkustundir. „Ég get ekki sagt til um það hversu mikill efniviður er í brennunum en við notum alla jafna 150 lítra af olíu á litlu brennurnar en 350 lítra á þær stærri,“ segir Guðmundur. Því má gera ráð fyrir að notaðir verði 2.300 lítrar af olíu á áramótabrennur í borginni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert