Katrínu eða Óttari að kenna?

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Mér finnst eins og mörgum öðrum nokkuð erfitt að horfast í augu við að það verði hér ríkisstjórn mjög langt til hægri. Það er samt ómaklegt að kenna einum manni þar um,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, á Facebook-síðu sinni þar sem hún vísar til Óttars Proppé, formanns Bjartrar framtíðar, en Óttarr hefur fengið á sig talsverða gagnrýni að undanförnu af vinstrivæng stjórnmálanna vegna stjórnarmyndunarviðræðna hans við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn.

„Kjósendur gáfu þeim flokkum sem vilja fara í grundvallarbreytingar ekki meirihluta, það er staðreynd og ekki hægt að horfa fram hjá því. Óttarr Proppé lagði sig mjög mikið fram við að reyna að koma á fimm flokka ríkisstjórnarsamstarfi þegar Píratar voru með umboðið. Það var flokkur sem vill ekki grundvallarbreytingar sem gat ekki hugsað sér að halda áfram með þessar samræður, ekki BF,“ segir Birgitta ennfremur og vísar þar til Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi þingmaður VG.
Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi þingmaður VG. mbl.is/Rósa Braga

„Steingrímur [J. Sigfússon, þingmaður VG,] var reyndar mun tilbúnari til að finna sáttaleið en við áttum von á. Það var Katrín [Jakobsdóttir, formaður VG,] sem tók þessa ákvörðun í stað þess að láta reyna á lokahnykkinn í viðræðunum,“ segir Birgitta síðan áfram í umræðum um stöðufærsluna og bætir við: „Það að standa vörð um sama sjávarútvegskerfið er ekki beint eitthvað sem ég myndi klappa einhverjum á bakið fyrir. VG hefði náð í gegn mjög mikið af sínum helstu málefnum sem þau lögðu áherslu á í aðdraganda kosninga.“

„Nóg að nota innihaldslausa frasa“

Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi þingmaður VG, blandar sér í umræðuna og segir: „Óttalega finnst mér þetta nú billegt hjá þér Birgitta Jónsdóttir.“ Á öðrum stað í umræðunni segir Álfheiður: „Ekki gleyma því gott fólk fyrir hvað Vinstri-græn standa - til hvers hreyfingin var kosin á þing. Katrín Jakobsdóttir er ein af fáum foringjum í stjórnmálastétt sem ekki skipti um stefnu eftir kosningar til þess eins að fara í ríkisstjórn. Og það kunnum við kjósendur VG að meta.“

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG. mbl.is/Árni Sæberg

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, sér einnig ástæðu til að blanda sér í umræðuna og beinir orðum sínum líkt og Álfheiður að Birgittu: „Þetta var skrýtið skot, mín kæra, og ég skil ekki alveg hvað býr að baki. En það er allt í lagi, ég er löngu hættur að þurfa að skilja allt. Ég skil þó að í dag er pólitíkin þannig að það er nóg að nota innihaldslausa frasa eins og kerfisbreytingar eða grundvallarbreytingar og þá þarf maður ekkert að rökstyðja mál sitt frekar.“

Fleiri taka þátt í umræðunni og þar á meðal Þór Saari, fyrrverandi þingmaður Borgarahreyfingarinnar og frambjóðandi Pírata fyrir síðustu þingkosningar. „Þessi hægri stjórn, langt, langt, langt til hægri er í boði Vinstri-grænna og þá sérstaklega Katrínar Jakobsdóttur. Það var meira að segja hálendisþjóðgarður í boði en VG sagði nei. Vinstri hvað? Grænt hvað? Megi þetta duglausa eiginhagsmunalið fara sömu leið og Samfylkingin í næstu kosningum.“

Þór Saari, fyrrverandi alþingismaður.
Þór Saari, fyrrverandi alþingismaður. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert