Katrín að missa af tækifærinu

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

„Vel má vera að vinstrimönnum á Íslandi líki vel að styðja þannig flokk. Annar möguleiki er að þeir telji atkvæðum betur varið hjá flokkum sem eru til í að axla ábyrgð,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og oddviti sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu, á vefsíðu sinni um stöðu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Elliði hefur talað fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn og VG taki höndum saman í stjórnarsamstarfi.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sé við það að missa af tækifæri til þess að axla ábyrgð í ljósi yfirstandandi viðræðna Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Elliði segist lítast vel á þær viðræður, með þeim fyrirvara að ekki liggi fyrir á hvaða forsendum þær verði. „Í stað þess að sýna forystu og stjórnun fylgdi hún straum stjórnleysis innan eigin flokks. Straumnum sem bergmálar gagnrýni án lausna. Hávaða án innihalds, orða án merkinga.“

Frétt mbl.is: Elliði vill ríkisstjórn með VG

„Þar með sópast af borðinu tækifæri fyrir hina íslensku þjóð til að leiða í jörðu deilumál seinustu áratuga undir stjórn tveggja stærstu flokka á alþingi sem standa fyrir sitthvorn pólinn og hafa eftir því breiða skírskotun til umbóta. Tækifæri til að sætta sjónarmið um náttúruvernd, nýtingu auðlinda, afstöðu til Evrópusambandsins, framtíðar fyrirkomulag í landbúnaði, uppbyggingu heilbrigðiskerfis og svo margt annað,“ segir Elliði ennfremur.

VG gæti ennfremur í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn „endurmótað löngu úrelt og heftandi samstarfsmunstur í íslenskum stjórnvöldum þar sem kaldastríðsviðhorf hafa reist girðingar mili flokka og þar með tryggt miðjuflokkum áhrif langt umfram lýðræðislegt umboð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert