„Rosalegt að fólk skuli drekka gos“

Fjölbreytt framboð er af sykruðum drykkjum.
Fjölbreytt framboð er af sykruðum drykkjum. mbl.is/Árni Sæberg

Fólk á aldrinum 50 til 70 ára heldur áfram að þyngjast. Frá árunum 1967 - 2012 hefur meðallíkamsþyngdarstuðull hækkað stöðugt, einkum eftir árið 1980 en meira hjá körlum en konum. Sykursýki af tegund 2 eykst í hlutfalli við vaxandi ofþyngd hjá þessum hópi fólks og tilheyrir svokölluðum lífstílssjúkdómum. Tíðni sykursýki er tvöfalt algengari hjá körlum en konum. Þetta helst í hendur við að karlar halda áfram að þyngjast en konur síður.  

Þetta kemur fram í rannsóknum Hjartaverndar sem Thor Aspelund, prófessor við heilbrigðisvísindasvið hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum og tölfræðingur hjá Hjartavernd, greinir frá á málstofu sem nefnist Sykurneysla Íslendinga – Lýðheilsuógn? og tilheyrir ráðstefnu um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands dagana 3. og 4. janúar. 

Thor Aspelund, prófessor við heilbrigðisvísindasvið hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum og …
Thor Aspelund, prófessor við heilbrigðisvísindasvið hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum og tölfræðingur hjá Hjartavernd.

Thor bendir á að svo virðist sem konur hafi náð betri tökum á þyngdinni en karlar. Karlar halda áfram að þyngjast jafnt og þétt og hafa gert undanfarinn áratug. Hins vegar virðist fólk hreyfa sig meira síðustu ár en það dugar ekki til því fólk neytir fleiri hitaeininga en það brennir. „Þetta er ekki flókið, það er allt of mikil næring í boði,“ segir Thor. Í því samhengi bendir hann á að það þurfti til dæmis að hlaupa býsna marga kílómetra til að brenna nokkrum hitaeiningum eða nákvæmlega 10 km fyrir tvo kleinuhringi. 

BMI-þyngdarstuðull marktækur

Útreikningar á BMI-þyngdarstuðli hafa verið gagnrýndir og bent á að þeir sem hafi hátt hlutfall af vöðvamassa komi illa út úr þessari mælingu. Thor segir að ekkert staðlað útreikningsform sé hafið yfir gagnrýni og bendir á að fáir einstaklingar séu með það mikinn vöðvamassa að það skekki heildarmyndina.

Hann telur notkun á BMI-þyngdarstuðli góðan og martækan mælikvarða til að meta heildina. Hann sýni svart á hvítu að bæði íslenskir karlar og konur eru í yfirþyngd og að meðaltali er þjóðin komin yfir kjörþyngdarmörk. Meðalþyngd karla fór úr 78,6 kg í 92,8 kg og meðalþyngd kvenna fór úr 65,3 kg í 75,4 kg. Bara 5 kg af því skýrast af hækkandi meðalhæð. Rest er umframfita!  Algengi sykursýki jókst frá 5,8% hjá körlum í 12,0% og hjá konum úr 2,7% í 4,1%.

Talsvert magn af sykri er í gosdrykkjum.
Talsvert magn af sykri er í gosdrykkjum. Getty images

„Rosalegt að fólk skuli drekka gos“

Spurður út í hvað hann telji að valdi því að þjóðin haldi áfram að þyngjast bendir hann helst á sykurinn. „Mér finnst rosalegt að fólk skuli drekka sykrað gos. Þetta er bara fljótandi sykur,“ segir Thor.

Hann vill að sykurskattur verði tekinn upp og vísar til þess að rannsóknir sýni að hærri skattur dregur úr neyslu á sælgæti og gosi. Í því samhengi bendir hann á að í háskólum víða á vesturströnd Bandaríkjanna sé ekki í boði að kaupa gos á svæðinu. Hann segir þessar aðgerðir til eftirbreytni en ítrekar að mikilvægt sé að halda á lofti fræðslu. 

Undanfarið hafi ýmsir sérfræðingar tjáð sig um sykurskattinn. Hann var afnuminn hér 1. janúar 2015. Læknirinn Lára G. Sig­urðardótt­ir er ein þeirra sem vill endurvekja sykurskattinn. 

Frétt mbl.is: Vill end­ur­vekja syk­ur­skatt­inn

mbl.is

Bloggað um fréttina