Þjóðaratkvæði ekki stefna flokksins

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í Alþingishúsinu í kvöld.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í Alþingishúsinu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum að skipuleggja þetta samtal á þessum fundi og aðeins að staðsetja okkur hvar við erum stödd, hvar við hörfum þörf fyrir að taka einstök mál til frekari umræðu og vorum með ákveðna verkaskiptingu og ákveða næsta fund. Þetta var fínn fundur upp á það að gera,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is eftir fyrsta formlega fundinn í stjórnarmyndunarviðræðum flokksins við Viðreisn og Bjarta framtíð.

Fundað verður aftur á morgun klukkan 13:30 og Bjarni hyggst kalla saman þingflokk Sjálfstæðisflokksins í fyrramálið og er stefnt að því að fundað verði klukkan tíu. Þar hyggst hann upplýsa þingmenn flokksins um stöðuna. „Það eru nokkur mál sem eigum eftir að taka til frekari umræðu og jafnvel þó menn getið sett niður á blað texta um einstök atriði er líka mikilvægt að menn gefi sér tíma til þess að ræða um slík mál þegar undir eru stórir málaflokkar. Þannig að það leiki enginn vafi á því að menn séu að sjá hlutina frá sömu hlið.“

Ekki stöðvað af einstaka þingflokkum

Bjarni sagði að ekki hafi að öðru leyti dregið til tíðinda á fundinum. „Þetta var fyrst og fremst fundur til þess að hefja viðræðurnar og skipuleggja sig.“ Spurður um Evrópumálin í stjórnarmyndunarviðræðunum sagði Bjarni stefnu Sjálfstæðisflokksins í þeim málum skýra og að flokkurinn ætli ekki að hvika frá henni. „Hann mun halda sínum sjónarmiðum á lofti. Það þýðir til dæmis að við erum ekki að fara að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið og við teljum að hagsmunum landsins sé best borgið utan Evrópusambandsins.“

Spurður hvort til greina kæmi að Sjálfstæðisflokkurinn setti málið á dagskrá eða tæki þátt í því til að mynda með þjóðaratkvæðagreiðslu í ljósi stefnu sinnar sagði Bjarni: „Það er ekki okkar stefna að efna til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu og við höfum ekki verið til samninga um slíkt.“ Spurður áfram hvort málið yrði hugsanlega sett í hendur þingsins sagði hann: „Það er auðvitað einhver veruleiki sem allir sjá, að slík mál geta komið fram á þinginu og það er ekki eitthvað sem einstaka þingflokkar geta komið í veg fyrir. Og það væri óskynsamlegt.“

Hins vegar skipti máli hvernig yrði brugðist við ef slík mál kæmu upp í þinginu. Spurður hvernig Sjálfstæðisflokkurinn myndi bregðast við því ef tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn að Evrópusambandinu kæmi fram í þinginu og yrði samþykkt sagðist Bjarni ekki geta tjáð sig um það. Hann ítrekaði hins vegar aðspurður að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki standa að umsóknarferli að sambandinu. „Það vona ég að komi engum á óvart.“

Frá fundi flokkanna þriggja í dag.
Frá fundi flokkanna þriggja í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is