Lítt skuldugir en félagslyndir dómarar

Aftari röð: Ingveldur Einarsdóttir, Benedikt Borgason, Gréta Baldursdóttir, Helgi Ingólfur …
Aftari röð: Ingveldur Einarsdóttir, Benedikt Borgason, Gréta Baldursdóttir, Helgi Ingólfur Jónsson, Karl Axelsson Fremri röð: Þorgeir Örlygsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson. Hæstiréttur Íslands

Dómarar við Hæstarétt Íslands eru lítt skuldsettir og eiga margir aðild að íþróttafélögum og öðrum áhugasamtökum. Af tíu dómurum eiga fjórir þeirra eignir á landsbyggðinni. Þetta er meðal þess sem fram kemur í hagsmunaskráningu dómara. 

Hæstiréttur íslands
Hæstiréttur íslands mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Benedikt Bogason á lóðir í Bláskógarbyggð en skuldar ekkert í þeim. Hann fær greitt fyrir aukastörf hjá ríkinu og EFTA-dómstólnum en hann situr meðal annars í skólanefnd MH og er varadómari við EFTA-dómstólinn. Hann er Framari og félagi í Hinu íslenska bókmenntafélagi en hér er hægt að lesa nánar um hagmuni hans. 

Næstur kemur Eiríkur Tómasson sem á engar fasteignir aðrar en til eigin nota og skuldar ekkert að öðru leyti en skuldir vegna þeirrar fasteignar. Hann á ekki eignir í neinum félögum en á meðal annars aðild að Hinu íslenska bókmenntafélagi og Amnesty International. Hér er hægt að lesa meira um eignir Eiríks.

Greta Baldursdóttir á engar aðrir eignir en þá sem hún býr í og skuldar ekki neitt. Hún sinnir ekki aukastörfum en á aðild að Kvenréttindafélagi Íslands og líkt og aðrir dómarar aðild að Dómarafélagi Íslands. Nánar hér.

Helgi Ingólfur Jónsson á þriðjungs hlut í jörð í Dalasýslu og skuldar ekkert annað en það sem tengist fasteign til eigin nota. Hann er Valsari og prófdómari í Almennri lögfræði við HÍ. Sjá nánar hér.

Ingveldur Einarsdóttir á engar aðrar fasteignir en til eigin nota og skuldar ekkert. Hún er gegnir engum aukastörfum og á ekki hlut í neinum félögum. Hún er félagi í Amnesty International. Sjá nánar hér.

Karl Axelsson á bæði helmingshlut í íbúð í Reykjavík, sem hann býr ekki í sjálfur, auk þess sem hann á hlut í þremur jörðum í Rangárþingi eystra. Jafnframt á hann hlutafé í Valsmönnum hf. Hann skuldar nokkrar milljónir í Arion-banka vegna kaupa á íbúð og jarðarhluta. Karl er félagi í knattspyrnufélaginu Val og í Ferðafélagi Íslands. Sjá nánar hér.

Mjög var fjallað um fjárhagsleg tengsl Markúsar Sigurbjörnssonar í fjölmiðlum á nýliðnu ári. Samkvæmt hagsmunaskráningunni á hann engar aðrar fasteignir en þá sem hann nýtir til eigin nota og skuldar ekki neitt. Hann á ekki eignarhlut í neinum félögum en hefur þegið laun fyrir að starfa sem prófdómari við lagadeild HÍ og við prófraun við að afla sér réttinda sem héraðsdómslögmaður. Markús er félagi í Sögufélaginu, Félagi íslenskra bifreiðareigenda og Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Sjá hér.

Ólafur Börkur Þorvaldsson á hlut í tveimur fasteignum á Selfossi auk þess sem hann á eignarhlut í fasteignum í Grímsnes- og Grafningshreppi. Hann á ekki eignarhlut í félögum og er skuldlaus. Hann er félagi í ungmennafélaginu Breiðablik. Sjá nánar hér.

Viðar Már Matthíasson á helmingshlut í tveimur jörðum í Strandabyggð og á helmingshlut í Skógræktarfélagi Ármúla sf. Þar gegnir hann einnig starfi framkvæmdastjóra en þiggur ekki laun fyrir. Jafnframt tekur hann þátt í ýmsum skógræktarverkefnum auk þess að vera félagi í Fuglavernd, Ferðafélagi Íslands og Skíðagöngufélaginu Ulli. Sjá nánar hér.

Þorgeir Örlygsson, forseti Hæstaréttar, á hlut í jörð í Rangárþingi ytra auk þess sem hann á hlut í íbúð sem hann býr ekki sjálfur í. Hann skuldar ekkert og á ekki hlut í félögum. Hann er varamaður í Feneyjarnefnd Evrópuráðsins auk þess sem hann er félagi í Hinu íslenska bókmenntafélagi, Viðeyingafélaginu, sem er átthagafélag og í Félagi skógarbænda á Suðurlandi. Sjá nánar hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina