„Snortin yfir því hvað fólk er gott“

Tinna er blendingur af dvergschnauzer og mínípúðlu. Mikill fjöldi fólks …
Tinna er blendingur af dvergschnauzer og mínípúðlu. Mikill fjöldi fólks hefur tekið þátt í leitinni að Tinnu, sem týndist í Reykjanesbæ daginn fyrir gamlársdag. Ljósmynd/Andrea

Það er mikið ljós í myrkrinu að fá þessi miklu viðbrögð frá fólki sem leitað hefur með okkur, segir Andrea Björnsdóttir, eigandi hundsins Tinnu sem týndist í Reykjanesbæ daginn fyrir gamlársdag.

Tinna er enn ófundin og hafa þau Andrea og Ágúst Ævar Guðbjörnsson leitað dag sem nótt að Tinnu litlu frá því að þau fengu að vita síðdegis á gamlársdag að hún væri týnd. Tinna, sem er verulega hrædd við flugelda, var í pössun í Reykjanesbæ þegar hún hvarf og því fjarri sínum heimaslóðum.

„Ég setti inn færslu á Facebook og spurði hvort einhver í Reykjanesbæ gæti aðstoðað okkur við að leita og þá tók við alveg ótrúleg atburðarás,“ segir Andrea. Facebook-hópurinn Hundasamfélagið byrjaði að skipuleggja leit og fólk var fljótlega farið að skipuleggja leitarhópa þar sem það skipti með sér svæðum.“

Stofnuð hefur verið sérstök Facebook-síða um leitina að Tinnu, sem er þegar komin með hátt í 2.000 félaga, og eins hafa nokkrir drónaeigendur boðist til að nota dróna sína við leitina.

Fólk með vasaljós úti um allt

„Það eru örugglega um 100 manns búnir að vera að leita í Reykjanesbæ,“ segir Andrea og bætir við að þau Ágúst hafi í sinni leit rekist víða á fólk með vasaljós eða akandi um bæinn í leit að Tinnu.

„Við erum alveg ótrúlega snortin yfir því hvað fólk er gott. Mig hefði aldrei grunað þetta, en þetta er mikið ljós í myrkrinu. Okkur líður náttúrulega sjálfum alveg ömurlega yfir þessu og þá veitir það manni von að hitta svona fólk.

Það er búin að vera alveg ótrúleg góðmennska í öllu þessu fólki sem hefur viljað aðstoða okkur.“

Þau Andrea og Ágúst leituðu Tinnu í alla nótt ásamt hópi af öðru fólki eftir að tilkynnt var að sést hefði til lítils svarts hunds í Krossmóum í Reykjanesbæ. Um fimmleytið í nótt barst síðan tilkynning um að lítill svartur hundur hefði verið á ferð í Garðinum og brunaði hópurinn þá þangað og fínkembdi svæðið. „Hún kemur alltaf þegar ég kalla. Þannig að ég er hissa ef þetta hefur verið hún.“

Um hádegið var síðan tilkynnt um að lítill svartur hundur hefði sést á hlaupum í Njarðvík í átt að Reykjanesbrautinni.

Vonin dvínar með hverjum degi sem líður

Andrea, sem heitið hefur 200.000 kr. fundarlaunum fyrir Tinnu, segir vonina óneitanlega dvína með hverjum degi sem líður.

„Við settum búrið hennar á einn stað þar sem greint var frá því að sést hefði til lítils svarts hunds, svo settum við flík af mér á annan stað,“ segir hún og útskýrir að hundar eigi það til að þefa uppi kunnuglega lykt og bíði þá þar eftir eigandanum. „Síðan höfum við líka sett dót af mér eða frá henni á nokkra staði í Keflavík og vonumst til að hún þefi það uppi. Við erum orðin rosalega hrædd um heilsu hennar, ef hún er þá á lífi enn þá.“

Tinna er blendingur af dvergschnauzer og mínípúðlu og er ljúfur hundur og einstakur karakter að sögn Andreu.

„Hún er feimin við ókunnuga, en myndi samt svara innkalli og athuga hver það væri,“ segir Andrea sem var á leið út aftur að halda leitinni áfram þegar mbl.is talaði við hana. En þau Ágúst hafa lítið sofið undanfarna sólarhringa.

 „Það gæti verið að hún fari frekar á stjá á næturnar þegar færri eru á ferðinni, þannig að við gerum ráð fyrir að halda áfram að leita í alla nótt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert