Skemmdarvargar teknir með þýfi

Tilkynnt var til lögreglunnar um rúðubrot við Droplaugarstaði við Snorrabraut um hálftólf í gærkvöldi og að tveir menn sem grunaðir voru um rúðubrotið létu sig hverfa af vettvangi.

Stuttu síðar var tilkynnt um mennina þar sem þeir voru að skemma póstkassa við Snorrabraut og síðan að brjóta rúðu í bifreið við Bergþórugötu og stela munum úr bifreiðinni. 

Nokkru síðar var tilkynnt um mennina í húsasundi við Bergþórugötu en þar börðu þeir tunnur með golfkylfu.

Síðan var tilkynnt um mennina við Laugaveg en þar voru þeir komnir inn í stigagang húss og voru að stela munum. Mennirnir voru handteknir skömmu síðar en þá voru þeir á Barónsstíg við hornið á Grettisgötu. 

Samkvæmt upplýsingum úr dagbók lögreglunnar voru mennirnir í annarlegu ástandi og eru vistaðir í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls. Þar fundust fíkniefni á þeim ásamt þýfi úr öðru þjófnaðarmáli.

Lögreglan handtók ölvaðan mann í Hafnarfirði á öðrum tímanum í nótt en maðurinn fór ekki að fyrirmælum lögreglu þar sem hann var óvelkominn í húsi þar sem hann var gestkomandi.  Maðurinn er vistaður í fangageymslu lögreglu þangað til ástand hans lagast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert