Skemmdarverk unnin á fjórum kirkjum á Akureyri

Framhlið kirkjunnar eru ljót á að líta, en krotað hefur …
Framhlið kirkjunnar eru ljót á að líta, en krotað hefur verið á bæði veggi og hurð. Ljósmynd/Svavar Alfreð Jónsson

Skemmdarverk voru unnin á fjórum kirkjum á Akureyri í nótt. Akureyrarkirkja varð þeirra verst úti, en framhlið og suðurhlið kirkjunnar eru útkrotaðar. Þá hefur einnig verið krotað á Glerárkirkju, Péturskirkju, sem er kirkja kaþólska safnaðar bæjarins og Hvítasunnukirkjuna nú í nótt, en þess má geta að kirkjurnar eru dreifðar um bæinn.

Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu sem er með það til rannsóknar.

Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, segir prestum hafa verið tilkynnt um málið í morgun af fólki sem var á leið til vinnu. „Þetta er aðkoman sem blasir við kirkjugestum,“ segir hann. „Það er búið að krota á framhlið kirkjunnar og kirkjudyrnar og svo er öll suðurhliðin útbíuð.“

Spreybrúsinn var skilinn eftir á vettvangi og segir Svavar Alfreð að snör handtök hafi verið við að reyna að ná krotinu af, þar sem útför fari fram í kirkjunni síðar í dag.

„Því miður er þetta ekki fyrsta skipti, en skemmdirnar hafa kannski ekki verið svona víðtækar áður,“ segir hann. „Síðast var þó hreinlega reynt að kveikja í kirkjunni og þá þurfti að skipta um hurð því að hún var ónýt,“ bætir hann við og segir aldrei hafa komist upp hverjir voru þar á ferð.

„Maður veit ekki hvað er þarna á ferðinni, en það hefur verið því næst árviss viðburður á undanförnum árum að það hafa verið unnin skemmdarverk á kirkjunni.“

Einnig var krotað á suðurhlið kirkjunnar.
Einnig var krotað á suðurhlið kirkjunnar. Ljósmynd/Svavar Alfreð Jónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert