Sterkar líkur á vannæringu

Huga þarf að næringu aldraðra.
Huga þarf að næringu aldraðra. mbl.is/Styrmir Kári

Líkur eru á að næringarástand sjúklinga á öldrunardeildum Landspítala sé ófullnægjandi. Um tveir þriðju eða 66% sjúklinga á öldrunardeildum Landspítala á Landakot höfðu ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu. Þetta eru 117 sjúklingar af 178. Þetta kemur fram í meistaraprófsrannsókn Katrínar S. Kristbjörnsdóttur í næringarfræði þar sem skoðað var næringarástand sjúklinga, viðhorf og sóun fæðis frá eldhúsi.

Í ljós kom að meðal orkuinntaka þátttakenda var 1.300 hitaeiningar á dag og meðal próteininntakan sjúklinga var 0.8 grömm á hvert kílógramm líkamsþyngdar. Hvort tveggja, fjöldi hitaeininga og inntaka próteins var ekki nægjanleg, að mati Katrínar. Hún bendir á að grunnorkuþörf þátttakenda hefði verið um 1.300 hitaeiningar og því hefðu sjúklingar þurft að innbyrða mun fleiri hitaeiningar. Prótein innihaldið í matnum hefði einnig þurft að vera að minnsta kosti 1,2 grömm.

Þyrftu orku- og próteinbætta fæðu 

„Helst þyrftu allir þessir öldruðu sjúklingar að vera á orku- og próteinbættri fæðu,“ segir Katrín. Hún bendir á að til dæmis þeir sem liggja á krabbameinsdeildum Landspítalans fái slíka fæðu. Þegar fólk eldist verður oft erfiðara að nærast bæði missir fólk oft lystina og getan til að matast fer oft þverrandi.

Í rannsókninni kom í ljós að fólk borðaði betur á kvöldin en í hádeginu og mældist fæðusóun 33% í hádeginu samanborið við 26% í kvöldmatnum. Mögulega væri betra að hafa  kvöldmatinn stærstu máltíð dagsins, fólk ætti einnig að hafa kost á að velja milli rétta og að fá að velja viðeigandi skammtastærðir, að sögn Katrínar.

Gott að hafa félagsskap við máltíð 

Fram kom að þeir sem eru með litla matarlyst jafnvel missa hana þegar þeir sjá fullan disk af mat fyrir framan sig. Fyrir þessa sjúklinga er betra að fá minni skammt á diskinn. „Það er margt sem hefur áhrif á hvernig fólk nærist þegar það er aldrað. Það getur til dæmis skipt miklu máli að hafa félagsskap við þessa athöfn,” segir Katrín.

Hún segir heilbrigðisstarfsfólk betur meðvitað um mikilvægi næringar fyrir aldraða en ýmislegt þyrfti að skoða nánar og bæta.   

Niður­stöðurn­ar eru kynnt­ar á ráðstefnu í líf- og heil­brigðis­vís­ind­um við Há­skóla Íslands. Ráðstefn­an hófst í gær og lýkur á morg­un.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert