Nýtt 300 herbergja hótel á Grensásvegi

Hótelið mun rísa á gatnamótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar. Þar er …
Hótelið mun rísa á gatnamótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar. Þar er nú Kvikmyndaskóli Íslands til húsa og áður voru þar höfuðstöðvar Hitaveitu Reykjavíkur og Mannvits. Teikning/Batteríið arkitektar

Stefnt er að því að á þessu ári hefjist framkvæmdir við nýtt fjögurra stjörnu 300 herbergja hótel á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar, en það yrði stærsta hótel landsins í fermetrum talið og næststærsta hótel landsins í herbergjum talið á eftir Fosshótelinu á Höfðatorgi. Unnið er að samningum við erlenda hótelkeðju um rekstur hótelsins, en keðjan rekur ekki önnur hótel hér á landi. Heildarfjárfesting vegna verkefnisins er um 10 milljarðar króna og áætlað er að opna það fyrir sumarið 2019.

„Skeifan er að breytast

Það er Fasteignafélagið G1 ehf. sem er eigandi fasteigna og lóða á Grensásvegi 1, þar sem nýja hótelið mun rísa. Eigendur þess eru félögin Miðjan og Þríhamrar. Guðmundur Ásgeirsson er framkvæmdastjóri félagsins, en Jón Þór Hjaltason er stjórnarformaður. Jón Þór er jafnframt eigandi Miðjunnar ásamt eiginkonu sinni.

Jón Þór segir í samtali við mbl.is að þetta sé væntanlega fyrsta skrefið í átt að breytingum í Skeifunni, en undanfarin ár hefur talsvert verið rætt um að breyta svæðinu eftir brunann hjá Fönn og eftir að fram komu hugmyndir um heildarendurskipulagningu á Skeifu-reitnum. Þá hafa fjárfestar verið bjartsýnir um framtíðaruppbyggingu á nærliggjandi svæðum. „Skeifan er að breytast, en það mun taka tíma,“ segir Jón Þór.

Jón Þór Hjaltason.
Jón Þór Hjaltason. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Samtals 17.830 fermetrar

Sem fyrr segir verða 300 herbergi á hótelinu og þá verða þar veitingastaður og tveir barir, þar af einn  á efstu hæð, svokallaður „skybar“. Samtals er um að ræða 16.283 fermetra ofanjarðar auk þess sem um 1.550 fermetrar í kjallara verða undir starfsmannaaðstöðu, sundlaug og heilsulaug. Þá verður um 3.200 fermetra bílakjallari. Samtals er rými utan bílastæða því um 17.830 fermetrar sem er það rýmsta hér á landi.

Á reitinum er í dag húsnæði Kvikmyndaskóla Íslands auk rannsóknarhúsnæðis sem Mannvit notaði og dælustöðvar Veitna. Stóra húsið sem hýsir skólann verður rifið, en hin tvö húsin látin standa. Þá er bílakjallari sem Mannvit lét gera undir hluta hússins og verður notast við hann að hluta við hótelið að sögn Jóns Þórs.

Rúmlega 10 milljarða verkefni

Fasteignafélagið G1 mun byggja og eiga nýja húsið. „Við erum ekki að fara að reka hótel sjálfir,“ segir Jón Þór kíminn. Viðræður hafa staðið yfir við alþjóðlega hótelkeðju í nokkurn tíma og hafa bæði viljayfirlýsing og rammasamningur verið undirritað varðandi reksturinn. Gert er ráð fyrir að lokasamningur verði frágenginn á næstu vikum. Að sögn Jóns Þórs er horft til 20-25 ára leigusamnings, en nýtt rekstrarfélag mun sjá um reksturinn og leigja eignina af G1.

Húsið verður 5-6 hæðir og verður byggt í skeifu. Samtals …
Húsið verður 5-6 hæðir og verður byggt í skeifu. Samtals verða 300 herbergi á hótelinu auk veitingastaðar og vínveitingastaða. Teikning/Batteríið arkitektar

„Þetta verður rúmlega 10 milljarða verkefni,“ segir Jón Þór spurður um heildarkostnað vegna framkvæmdanna. Þetta verður því meðal stærstu einkaframkvæmda hér á landi undanfarin ár. 

Í deiliskipulagi hafði verið samþykkt að reisa nýtt skrifstofuhúsnæði sömu stærðar á reitinum, en í byrjun síðasta árs sóttu eigendur um að fá að breyta því í hótel. Það var samþykkt af skipulagsyfirvöldum seint á árinu sem var að líða.

Staðsett á miðjum þróunarás borgarinnar

Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur frá 2013 er horft til þess að þróunar- og samgönguás borgarinnar verði frá miðbænum, upp Borgartúnið og Suðurlandsbraut og gegnum Höfðana. Jón Þór bendir á að Skeifan og hótelreiturinn séu þar alveg í miðjunni. „Hótelkvótinn í 101 er búinn, þar er ekki hægt að fá meira pláss,“ segir hann og bætir við að miðborgin sé þenjast út og undanfarið hafi Suðurlandsbrautin farið í gegnum endurnýjun lífdaga sinna og fram undan séu breytingar í Skeifunni. Staðsetning hótelsins sé því mjög góð hvað varði að vera miðsvæðis, tengingu við framtíðaralmenningssamgöngur og svo nálægð við Laugadalinn.

Unnið verður að áframhaldandi fjármögnun verkefnisins næstu vikur, en Jón Þór segist vonast til þess að arkitektavinna geti hafist í næsta mánuði. Við taki svo 2-3 mánaða verkfræðivinna, en vonandi verði hafist handa við að rífa núverandi hús í sumar. Miðað við áætlanir sé svo gert ráð fyrir því að hótelið verði tilbúið í apríl eða maí árið 2019, eða að framkvæmdir sjálfar muni ekki taka meira en um 24 mánuði. Á bak við verkefnið stendur auk Fasteignafélagsins G1, Batteríið arkitektar, verkfræðistofan Mannvit og ráðgjafafyrirtækin Covenant Capital og Front ráðgjöf.

Hótelið mun rísa á rauða reitnum. Lóðin nær einnig yfir …
Hótelið mun rísa á rauða reitnum. Lóðin nær einnig yfir dæluhús og rannsóknarhús sem eru lituð ljósrauð á myndinni. Þau munu áfram standa. Kort/mbl.is

Stærsta svítan 115 fermetrar

Hótelið verður rúmlega fjögurra stjörnu að sögn Jóns Þórs, en stærð á minnstu herbergjum verður 26 fermetrar og almenn herbergi frá 26 upp í 46 fermetra. Þá verður stærsta svítan heilir 115 fermetrar.

Spurður um að fara í framkvæmdir sem þessar nú þegar gengi krónunnar hefur styrkst nokkuð undanfarið og í ljósi áhyggja manna af áhrifum af slíkri styrkingu á ferðaþjónustuna segir Jón Þór að rekstrargrundvöllurinn ætti eftir sem áður að vera traustur. Bendir hann á að mikil umframeftirspurn hafi verið eftir hótelherbergjum undanfarin ár og að hótel ættu að standa traust jafnvel þótt ferðamönnum myndi fækka eitthvað, sem hann telur þó ekki líklegt.

Segir hann þessa miklu umframeftirspurn hafa verið brúaða með leigu íbúða undanfarið. „Þetta hefur reddast með Airbnb, en þar verður væntanlega skellur núna eftir áramótin,“ segir Jón Þór og vísar þar til breytinga á reglugerðum um útleigu íbúðahúsnæðis sem tók gildi núna eftir áramót.

Jón Þór hefur áður komið að uppbyggingarverkefnum en fyrirtæki hans og honum tengd hafa meðal annars reist sjö skrifstofu- og verslunarhúsnæði í Miðjunni og Smáranum, fyrir ofan Smáralindina, heilsugæslu Árbæjar og Urðarhvarf 6, sem Mannvit leigir í dag, en var fyrir áramótin selt til Regins.

Hitaveita, Mannvit, kvikmyndaskóli og nú hótel

Hitaveita Reykjavíkur byggði upphaflega dæluhús á lóðinni að Grensásvegi 1 árið 1965. Er það samtals 710 fermetrar að stærð. Árið 1976 reisti fyrirtækið svo höfuðstöðvar sínar á lóðinni í 1.663 fermetra byggingu. Var öðru samliggjandi húsi bætt við árið 1983, en það er 1.745 fermetrar. Við bættist svo rannsóknarstofa árið 1986 upp á 347 fermetra. Samtals var því stærð húsnæðis á reitnum orðið 4.465 fermetrar í rekstri Hitaveitunnar.

Engin herbergi eru áformuð á jarðhæð heldur veitingaaðstaða, barir og …
Engin herbergi eru áformuð á jarðhæð heldur veitingaaðstaða, barir og fundaraðstaða. Teikning/Batteríið arkitektar

Síðar sameinast Hitaveitan í Orkuveitu Reykjavíkur, en rekstur hitaveituhlutans er áfram í húsinu. Árið 2001 kaupir verkfræðistofan Hönnun svo húsnæðið af Orkuveitunni, en flytur þó ekki inn í það fyrr en árið 2003 þegar Hitaveitan hafði komið sér fyrir í nýju húsnæði Orkuveitunnar á Bæjarhálsi.

Á árunum 2007 til 2008 sameinuðust svo verkfræðistofurnar VGK, Hönnun og Rafhönnun undir merkjum Mannvits og varð húsnæðið að höfuðstöðvum sameinaðs fyrirtækis. Um mitt ár 2014 flutti Mannvit svo höfuðstöðvar sínar í Urðahvarf 6, en það húsnæði hafði Faghús, dótturfélag Miðjunnar, áður reist. Á móti var Grensásvegur 1 keyptur af Mannviti og komst í hendur G1 og Miðjunnar. Í kjölfarið tók Kvikmyndaskóli Íslands húsið á leigu, en leigusamningur skólans rennur út í júní á þessu ári.

mbl.is
Loka