Reykjanesbúar virkir í leitinni að Tinnu

Guðfinna Kristinsdóttir ásamt hundi sínum Tyrael. Hún segir hundaeigendur almennt …
Guðfinna Kristinsdóttir ásamt hundi sínum Tyrael. Hún segir hundaeigendur almennt til í að taka þátt í leit að týndu dýri ef þeir geta, enda skilji allir hræðsluna og vonleysið við að týna besta vininum. Ljósmynd/Guðfinna Kristinsdóttir

„Ég held að hundaeigendur séu almennt gott fólk,“ segir Guðfinna Kristinsdóttir, einn af stofnendum Hundasamfélagsins. Guðfinna er ein af þeim sem hafa skipulagt leit að dvergschnauzer-blendingnum Tinnu, sem týndist daginn fyrir gamlársdag og er nú búin að vera týnd í tæpa viku.

„Við erum mjög heppin að vera með Hundasamfélagið, það er sterkur og samheldin hópur sem er fljótur að stökkva til og hjálpa þegar það koma upp svona mál.“

Frétt mbl.is: Snortin yfir því hvað fólk er gott

Rúmlega 21.000 félagar eru skráðir í hið sístækkandi Hundasamfélag og segir Guðfinna þá hundaeigendur sem frétti af týndum hundi í sínu nágrenni vera duglega að svipast um. Svo er til að mynda nú í tilfelli Tinnu litlu og hafa hundaeigendur í Reykjanesbæ og nágrenni verið iðnir við að kemba svæðið.  „Síðan erum við búin að virkja samfélagið mjög vel í Reykjanesbæ. Þannig er ein stelpa til að mynda búin að þýða auglýsingar um Tinnu yfir á pólsku og hefur verið að dreifa þeim til að mynda uppi á Ásbrú og á fleiri staði þar sem Pólverjar eru.“ Eins sé í vinnslu að senda auglýsingu í flugriti inn á hvert heimili.

Skilja allir hræðsluna og vonleysið

„Margir aðstandendur þeirra hunda sem týnast koma að hverri leit og svo eru það hundaeigendur sem eru á svæðinu og eru lausir,“ segir hún. „Einnig hafi lítill, fastur hópur tekið þátt í öllum umfangsmestu leitunum og er Andrea Björnsdóttir, eigandi Tinnu, einmitt ein af þeim. „Hún hefur tekið þátt í öllum stóru leitunum,“ segir Guðfinna.

„Almennt þá eru hundaeigendur fljótir að stökkva til og leita ef þeir geta, af því að ég held að það skilji allir hræðsluna og vonleysið við að dýrið sitt sé týnt.“

Leitin að Tinnu er fjórða umfangsmikla leitin sem skipulögð hefur verið af Hundasamfélaginu, en auk þess hafa félagar tekið þátt í fjölda smærri leita. „Við erum orðin of vön að leita finnst mér,“ segir Guðfinna og bætir við að yfirleitt séu það hundar í pössun eða hvolpar sem týnist illa. „Hluti af vandamálinu er að erfitt getur verið að greina hegðunarmynstur þeirra dýra sem týnast á meðan þau eru í pössun. Annað hvort fara þau niður í fylgsni að fela sig eða þá að þau reyna að fara heim.“

Tíkin Tinna er nú búin að vera týnd í tæpa …
Tíkin Tinna er nú búin að vera týnd í tæpa viku. Reykjanesbúar hafa verið duglegir að taka þátt í leitinni og nú hafa Hafnfirðingar verið beðnir um að hafa augun opin, þar sem vísbendingar eru um að hún kunni að vera á heimleið. Ljósmynd/Andrea Björnsdóttir

Svo kann að vera með Tinnu, en örlitlar vísbendingar eru að sögn Guðfinnu um að hún sé mögulega á leiðinni til Reykjavíkur. Talið er að spor sem leiddu frá Reykjanesbæ út í Voga á Vatnsleysuströnd kunni að tilheyra henni.

„Þess vegna erum við að biðja fólk í Hafnarfirðinum að hafa opin augun og svo höfum við verið að leita í hrauninu á milli.“

Finnast flestir aftur

Spurð hvort það sé möguleiki fyrir smáhund að komast þessa vegalengd segir hún fordæmi um slíkt. Chihuahua hundur hafi til að mynda farið sambærilega vegalengd í þá viku sem hann var týndur og þá hafi cocker spaniel sem lenti í bílveltu fyrir 15 árum fundist langt frá slystað. „Við erum búin að vera heppin með veður af því að það er búið að vera tiltölulega heitt. Þannig að það er alveg möguleiki, sérstaklega ef hún hefur komist í ferskvatn og eitthvað af hræjunum frá tófunum.“

Guðfinna segir flesta hunda sem týnast finnast aftur og svo sé til að mynda með þá hunda sem Hundasamfélagið hefur til þessa staðið fyrir umfangsmikilli leit að. Svo er þó ekki alltaf, og er það þá yfirleitt ef hundurinn er utan þéttbýlis. „Það var einn sem að hvarf á Norðurlandinu í fyrra og annar sem týndist í Kjósinni. Þannig að ef að Tinna er enn í Reykjanesbæ þá mun hún finnast á endanum.“

Þróa app fyrir týnda hunda

Guðfinna hefur í samstarfi með þeim Andreu og Ágúst Ævar Guðbjörns­syni, sem einnig á Tinnu, unnið í meira en ár að því að þróa app fyrir týnda hunda.

„Ég setti af stað söfnun á Karolinafund í fyrra og safnaði þar hálfri milljón til að koma verkefninu á stað. Við höfum síðan verið að skoða mismunandi leiðir í forritun á appinu og hvernig við viljum að leitarfídusinn sé,“ segir Guðfinna.

„Í leitinni að Tinnu núna þá er t.d. aðalvandamálið hjá okkur að við vitum ekkert af fólki sem er að leita á svæðinu. Við viljum því geta verið með möguleika fyrir fólk til að skrá sig inn á hverja leit, þannig að hægt verði að sjá staðsetningu þeirra sem taka þátt svo hægt sé að koma í veg fyrir að leitað sé sama svæði aftur og aftur.“

Andrea hefur boðið 300.000 kr. fundarlaun fyrir Tinnu og eru þeir sem kunna að hafa séð til hennar beðnir að hafa sam­band í síma 846-6613 eða 615-6056.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert