„Ég vísa því algjörlega á bug“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, vísar því alfarið á bug að skýrslu starfs­hóps fjár­málaráðuneyt­is­ins um eign­ir Íslend­inga á af­l­ands­svæðum hafi með einhverjum hætti verið haldið leyndri. Skýrslan var tilbúin í október í fjármálaráðuneytinu en var birt í gær. 

Frétt mbl.is: Allt að 810 milljarðar á aflandssvæðum

„Ég tel hafa verið gríðarlega mikilvægt að taka hana saman,“ segir Bjarni um skýrsluna sem gerð hafi verið að hans frumkvæði. Sagði hann í samtali við fréttamann Rúv í Valhöll í dag það vera fagnaðarefni að skýrslan sé komin út og ljóst sé að fjárhæðirnar sem um ræðir séu mjög háar og umfang þessara mála hafi vaxið gríðarlega í aðdraganda hrunsins. „Tap samfélagsins er verulegt og þess vegna er það mikilvægt að við höfum verið að breyta lögum, skrifa undir upplýsingaskiptasaminga og efla skattaeftirlit til þess að bregðast við.“

Bjarni segir skýrsluna ekki hafa verið birta strax í október þar sem alltaf hafi staðið til að afhenda hana efnahags- og viðskiptanefnd en þar sem þing hafi ekki verið starfandi þegar skýrslan var tilbúin hafi því verið frestað þar til þing kæmi saman að nýju og búið væri að skipa ríkisstjórn. Þar sem ríkisstjórnarmyndun hafi dregist á langinn hafi verið ákveðið að bíða ekki lengur með birtingu skýrslunnar.

Segir pólitíska andstæðinga hafa gert sér mat úr málinu

„Þeir sem eru reiðir eru pólitískir andstæðingar mínir, fyrst og fremst. Formenn í stjórnmálaflokk til dæmis, fyrrverandi formenn, og svo framvegis sem eru að reyna að gera sér einhvern pólitískan mat úr þessu,“ segir Bjarni. Vill hann meina að mikið hafi verið hamrað á málum aflandsfélaga og skattaundanskota í kosningabaráttunni og hann geti ekki séð að það sé nokkuð í skýrslunni sem nauðsynlega hefði þurft að koma fram fyrir kosningar.

„Ég bara tók eftir því að Panamaskjöl og aflandsfélög voru rauður þráður í málflutningi margra flokka alveg fram á kjördag og ég held það hafi ekki farið fram hjá neinum,“ segir Bjarni. „Ég vísa því algjörlega á bug að henni hafi með einhverjum hætti verið haldið leyndri, það bara er ekki þannig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert