Hefði getað farið mjög illa

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég var að koma inn til lendingar og þegar ég var að koma í átt að Tjörninni þá flaug dróni yfir mig, mjög nálægt,“ segir Gísli Gíslason þyrluflugmaður í samtali við mbl.is en hann lenti í því í dag þegar hann var að lenda á þyrlu á Reykjavíkuflugvelli að dróna var flogið rétt hjá honum. Gísli segir að honum hafi brugðið mikið enda hefði þetta getað farið mjög illa.

Reglur um drónaflug.
Reglur um drónaflug.

Gísli segist hafa tilkynnt málið strax til flugturnsins sem hafi haft samband við lögregluna. Hann segir að þarna hljóti einhver að hafa verið á ferð sem ekki þekkti til aðstæðna og ekki gerði sér grein fyrir því að flugvöllur væri í nágrenninu. Hins vegar telji hann að leggja þurfi meiri áherslu á fræðslu um þær reglur sem gildi um flug dróna. Hvað megi og hvað ekki.

„Þetta hefði alveg getað verið farþegaflugvél með fimmtíu manns um borð,“ segir Gísli. Hann segist hafa vakið athygli á málinu á Facebook-síðu á vegum drónaflugmanna en þar á bæ virtust margir ekki vera með þær reglur á hreinu sem í gildi séu um notkun dróna. „Þetta hefði einfaldlega getað farið mjög illa þegar maður hugsar um það eftir á.“

Fræðslan virðist þannig ekki vera nógu mikil. „Það þyrfti hreinlega að vera þannig að þegar þú kaupir dróna þá fáir þú upplýsingar um það hvar megi fljúga svona tækjum. Eins og mér þykja þetta frábær tæki þá langar mig einfaldlega bara ekki að rekast á þau,“ segir Gísli. Málið snúist auðvitað einfaldlega um öryggismál enda geti mjög mikið verið í húfi.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert