Myndun ríkisstjórnar á lokametrunum

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Stefnt er að því að flokksráð Sjálfstæðisflokksins muni funda annað kvöld vegna stjórnarmyndunarviðræðna flokksins við Viðreisn og Bjarta framtíð. Einnig er stefnt að því að ráðgjafaráð Viðreisnar og stjórn Bjartrar framtíðar fundi á sama tíma. Gert er ráð fyrir að stjórnarsáttmáli fyrirhugaðrar ríkisstjórnar verði lagður fyrir flokksstofnanirnar. 

Þingflokkur Viðreisnar fundar í dag. Benedikt Jóhannesson, formaður flokksins, segir aðspurður að ekki endanlega liggja fyrir hverjir muni gegna hvaða ráðherraembætti í ríkisstjórninni. „Þetta er ekki alveg búið en þetta er allt að færast á lokastigið.“ Spurður hvort það sem eftir sé sé aðeins formsatriði segist Benedikt ekki vilja tala um formsatriði í því sambandi en það sé hins vegar verið að ganga endanlega frá málinu.

„Menn eru bara að fara í gegnum þetta og lesa aftur og aftur setningarnar og reyna að fá svona ásættanlega niðurstöðu,“ segir Benedikt. „Þetta fer allt í rétta átt.“ Spurður hvenær megi búast við nýrri ríkisstjórn gangi allt eftir eins og stefnt sé að segir hann: „Bjarni talaði um miðja viku í gær. Ég geri enga athugasemd við það.“ Hann sé hóflega bjartsýnn á framhaldið. Spurður hvort málið sé sem sagt á lokametrunum segir hann: „Já, það virðist vera það.“

Þingflokkur Viðreisnar við upphaf fundar í dag.
Þingflokkur Viðreisnar við upphaf fundar í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert