Evrópumálin sett á ís

Ánægja. Farið var yfir lokadrög að stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar á …
Ánægja. Farið var yfir lokadrög að stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar á fundi þingmanna Viðreisnar í gær. mbl.is/Árni Sæberg

 Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar mun ekki leggja fram tillögu á Alþingi varðandi mögulega umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu á núverandi kjörtímabili.

Þetta kemur fram í drögum að stjórnarsáttmála sem formenn flokkanna þriggja hafa kynnt fyrir þingflokkum sínum. Þó er með nokkuð almennu orðalagi opnað fyrir þann möguleika að þingmenn stjórnarmeirihlutans geti stutt þingmál varðandi umsóknarferli að Evrópusambandinu, komi slíkt mál fram „undir lok kjörtímabilsins,“ eins og það mun vera orðað í sáttmáladrögunum. Ekki virðist þó liggja fyrir nákvæm skilgreining á því við hvaða dagsetningu skuli miðað með orðalaginu undir lok kjörtímabilsins.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins munu einnig hafa verið kynntar tillögur að skiptingu ráðuneyta milli flokkanna. Þar mun Sjálfstæðisflokkur fá forsætisráðuneyti, innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti og ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Viðreisn mun fá ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála í því sama ráðuneyti ásamt fjármálaráðuneyti, og ráðuneyti félags- og húsnæðismála í velferðarráðuneyti. Björt framtíð mun hins vegar skipa ráðherra heilbrigðismála í því ráðuneyti ásamt umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Heimildir Morgunblaðsins herma að það hafi mætt töluverðri andstöðu meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins af landsbyggðinni að ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála félli Viðreisn í skaut.

Talið er fullvíst að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn. Rætt hefur verið um Benedikt Jóhannesson sem fjármálaráðherra og Óttar Proppé sem heilbrigðisráðherra. Önnur skipan liggur ekki fyrir.  Ekki hefur verið gerð tillaga um breytingar á skipan stjórnarráðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »