Lenti í brimi og fór út með soginu

Við Dyrhólaey eru skilti á þremur tungumálum auk íslensku sem …
Við Dyrhólaey eru skilti á þremur tungumálum auk íslensku sem vara m.a. við hættu af sjógangi. Göngustígar eru víðast afmarkaðir með keðjum mbl.is/Jónas Erlendsson

Konan sem lést við Dyrhólaey í gær, hafði farið ásamt eiginmanni sínum, syni á þrítugsaldri og 14 ára dóttur niður í svokallaða Kirkjufjöru austast á Dyrhólaey þegar stærri alda kom og felldi soninn og tók hann með sér út.  Móðirin lenti einnig í briminu og fór út með soginu. Sonurinn komst að sjálfsdáðum í land.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Þar segir að rannsóknin á tildrögum slyssins standi enn yfir. 

Tilkynningin er svohljóðandi:

„Rannsókn á tildrögum slyss í Dyrhólaey stendur enn yfir. Fyrir liggur að mikið brim og sog var við ströndina í gær og aldan breytileg þannig að á stundum náði hún tiltölulega skammt upp í fjöruna en síðan komu stærri fyllur sem lömdu á klettum eyjarinnar.  Konan sem lést hafði farið ásamt eiginmanni sínum, syni á þrítugsaldri og 14 ára dóttur niður í svokallaða Kirkjufjöru austast á Dyrhólaey þegar stærri alda kemur og fellir soninn og tekur hann með sér út. Móðirin lendir einnig í briminu og fer út með soginu.  Sonurinn kemst af sjálfsdáðum í land og ásamt föður sínum og systur í öruggt skjól.  Öll fjölskyldan mun með einum eða öðrum hætti hafa lent í briminu en mis mikið þó.

Björgunarsveitir sjúkralið og lögregla voru kölluð í Reynisfjöru en þess ber að geta að skv. landakorti nær Reynisfjara allt frá Reynisfjalli vestur að Dyrhólaós. Um klukkustund eftir að tilkynning um slysið barst sást hvar konuna rak á land í fjöruna skammt austan við Dyrhólaós.  Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar flutti hana á sjúkrahús í Reykjavík en þá höfðu lífgunartilraunir áhafnar þyrlunnar ekki borið árangur og var hún úrskurðuð látin fljótlega eftir komu á slysadeild.

Eiginmaður konunnar og börn voru flutt með sjúkrabifreið á slysadeild í Reykjavík en voru útskrifuð í gærkvöldi og aðstoðaði lögregla þau við að komast í náttstað. Þau njóta aðstoðar sendirðáðs síns.

Við Dyrhólaey eru skilti á þremur tungumálum auk íslensku sem vara m.a. við hættu af sjógangi. Göngustígar eru víðast afmarkaðir með keðjum. 

Áfram er unnið að rannsókn málsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert