Hyggjast innleiða samning SÞ um réttindi fatlaðra og lögfesta NPA

„Örugg og góð heilbrigðisþjónusta, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, verður forgangsmál ríkisstjórnarinnar,“ segir um heilbrigðismálin í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Stefnt verður að því að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustunni og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut hraðað eins og kostur er.

Stjórnarflokkarnir hyggjast bæta aðgengi að sérfræðiþjónustu í dreifðum byggðum og styrkja stöðu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar sjúklinga.

„Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu verður aukið, meðal annars með sálfræðiþjónustu á heilsugæslu og í framhaldsskólum. Stuðningur verður aukinn við börn foreldra með geðvanda og sálfræðiþjónusta felld undir tryggingakerfi í áföngum,“ segir í stefnuyfirlýsingunni.

Þá verður aukinn þungi settur í uppbyggingu öldrunarþjónustu.

Um almannatryggingar segir að tryggt verði að allir sem verða fyrir „skerðingu á starfsgetu vegna sjúkdóma eða slysa fái tækifæri til starfsendurhæfingar þegar læknisfræðilegri meðferð og endurhæfingu er lokið með það að markmiði að auka lífsgæði og samfélagslega virkni.“

Þá segir að ríkisstjórnin muni styðja dyggilega við innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð.

Lífeyrisaldurinn verði hækkaður í áföngum og frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði hækkað.

Um heilbrigðismálin og almannatryggingar segir í stefnuyfirlýsingunni:

Heilbrigðismál

Örugg og góð heilbrigðisþjónusta, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, verður forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Mótuð verður heilbrigðisstefna sem samhæfir og treystir heilbrigðisþjónustuna, bætir lýðheilsu og stuðlar að heilbrigði landsmanna.

Stefnt skal að því að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustu. Uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut verður hraðað eins og kostur er og byggingu meðferðarkjarna lokið árið 2023. Aðgengi að sérfræðiþjónustu skal bætt í hinum dreifðu byggðum, meðal annars með því að efla fjarheilbrigðisþjónustu.

Staða heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar sjúklinga verður styrkt. Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu verður aukið, meðal annars með sálfræðiþjónustu á heilsugæslu og í framhaldsskólum. Stuðningur verður aukinn við börn foreldra með geðvanda og sálfræðiþjónusta felld undir tryggingakerfi í áföngum.

Sérstakt átak verður gert til að stytta biðtíma eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Við stefnumótun og áætlanagerð stjórnvalda verði gætt að áhrifum á heilsu og líðan íbúa. Dregið skal til framtíðar úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu.

Aukinn þungi verður settur í uppbyggingu í öldrunarþjónustu, sérstaklega heimahjúkrun og hjúkrunarheimili. Unnið verður að fjölgun rýma í dagþjálfun aldraðra og biðtími styttur.

Almannatryggingar

Tryggt verði að allir sem verða fyrir skerðingu á starfsgetu vegna sjúkdóma eða slysa fái tækifæri til starfsendurhæfingar þegar læknisfræðilegri meðferð og endurhæfingu er lokið með það að markmiði að auka lífsgæði og samfélagslega virkni. Tekið verði upp starfsgetumat og örorkulífeyriskerfið þannig gert sveigjanlegra til að ýta undir þátttöku á vinnumarkaði. Unnið verði að því að efla sjálfstæði fólks með fötlun, bæði hvað varðar atvinnuþátttöku og samgöngur. Ríkisstjórnin mun styðja dyggilega við innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) verði lögfest sem eitt af þjónustuformum fólks með fötlun í samráði við sveitarfélög. Ávallt skal leitast við að fólk með fötlun hafi val um að stýra þjónustu sinni sjálft.

Lífeyrisaldur hækki í áföngum. Aldraðir geti nýtt starfsgetu sína og reynslu með því að sveigjanleg starfslok verði meginregla. Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði hækkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert