Aðeins leyft að spyrja fimm spurninga

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Kristinn

Vogunarsjóðunum Autonomy Capital LP, Autonomy Master Fund Limited, GAM Trading (Nr. 37) og Autonomy Iceland Two S.á.r.l., hefur verið heimilað að leggja fimm spurningar fyrir dómkvadda matsmenn, án þess þó að eiginlegt mál hafi verið höfðað gegn íslenska ríkinu.

Þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar, sem kveðinn var upp í dag, en beiðni sjóðanna hljóðaði í fyrstu upp á ellefu spurningar. Óskuðu þeir eftir að þeim yrði beint til matsmanna, með það að markmiði að leggja grunn að kröfugerð sinni og málatilbúnaði í komandi dómsmáli

Í Héraðsdómi Reykjavíkur var beiðnin tekin að hluta til greina, að undanskildum 2.,3. og 5. spurningu, þar sem þær þóttu tilgangslausar til sönnunarfærslu í málinu.

Íslenska ríkið kærði þá úrskurðinn, sem nú hefur verið staðfestur, fyrir utan það að Hæstiréttur hafnar öðrum þremur spurningum af þeim ellefu sem bornar voru fyrir héraðsdóm.

Matsspurningar nr. 9, 10 og 11 verða því heldur ekki lagðar fyrir dómkvadda matsmenn, til viðbótar við hinar þrjár, að því er segir í dómnum. Þannig fékkst heimild fyrir aðeins tæpum helmingi spurninganna.

Sjá dóm Hæstaréttar

Mat sjóðanna er að lög Alþingis fari í bága við …
Mat sjóðanna er að lög Alþingis fari í bága við stjórnarskrá. mbl.is/Styrmir Kári

„Margháttuð skerðing á stjórnarskrárvörðum réttindum“

Í beiðni sjóðanna kemur fram að það sé mat þeirra að lög nr. 37/2016, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, sbr. lög nr. 42/2016 um breytingu á þeim lögum, feli í sér margháttaða skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum þeirra án þess að sýnt hafi verið fram á að almannaþörf krefji eða að aðrar réttlætingarástæður séu til staðar.

Þá segir að fyrir sjóðunum vaki að afla sönnunar um tiltekin atvik og efnahagslegar staðreyndir, að baki væntanlegum kröfum þeirra á hendur varnaraðila. Þannig muni í komandi dómsmáli meðal annars reyna á það hvort tiltekin ákvæði áðurnefndra laga standist stjórnarskrá.

mbl.is