Frestur til kaupa á Felli ekki liðinn

Jörðin Fell liggur að Jökulsárlóni.
Jörðin Fell liggur að Jökulsárlóni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sýslumaðurinn á Suðurlandi segir að frestur ríkisins til að taka afstöðu til nýtingar forkaupsréttar á jörðinni Felli við Jökulsárlón hafi ekki verið liðinn þegar ákveðið var að nýta forkaupsréttinn 9. janúar.

„Það er meginregla að forkaupsréttur verði ekki virkur fyrr en bindandi samningur kemst á milli eiganda forkaupsréttarandlags og kaupanda. Í lagalegum skilningi er litið svo á að bindandi samningur kemst ekki á fyrr en tilboð er samþykkt sem í þessu tilviki var 11. nóvember 2016,“ segir í tilkynningu frá sýslumanni.

Frétt mbl.is: Var fresturinn framlengdur?

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að vegna klúðurs hjá sýslumanninum á Suðurlandi og fjármálaráðuneytinu væru líkur á því að ríkið hafi keypt jörðina eftir að frestur til þess rann út, sem gæti orðið til þess að það geti ekki eignast jörðina.

Anna Birna Þráinsdóttir, sýslumaðurinn á Suðurlandi, vísar því á bug í samtali við mbl.is að um klúður hafi verið að ræða.  Hún tekur fram að fresturinn til að nýta sér forkaupsréttinn á jörðinni hafi aldrei verið framlengdur.

„Fresturinn telst ekki frá fyrr en kominn er bindandi kaupsamningur. Þá fyrst getur ríkissjóður tekið afstöðu til kaupanna. Í bréfi embættisins tíl ríkisins þegar því er tilkynnt um sinn forkaupsrétt hafa þeir frest til 10. janúar,“ segir Anna Birna. „Í kaupsamningi sem gerður var við kaupanda, Fögrusali, er líka tiltekið að ríkið hafi til 10. janúar til að neyta forkaupsréttar.“

Margir sýndut jörðinni Fell, sem nær yfir hluta Jökulsárlóns, áhuga.
Margir sýndut jörðinni Fell, sem nær yfir hluta Jökulsárlóns, áhuga. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í fréttatilkynningunni kemur einnig fram að greina verði nákvæmlega frá samningsskilmálum í forkaupsréttartilboði. Það forkaupsréttartilboð sem var sent forkaupsréttarhafa 7. nóvember hafi ekki borið með sér hina endanlegu kaupsamningsskilmála. Þeir hafi ekki verið ljósir fyrr en við samþykkt tilboðsins 11. nóvember 2016.

„Afstaða embættis sýslumannsins á Suðurlandi er sú að þar sem ekki komst á bindandi kaupsamningur milli sýslumannsins á Suðurlandi f.h. landeiganda Fells og kaupanda fyrr en 11. nóvember 2016, þegar kauptilboðið var samþykkt með endanlegum samningsskilmálum, getur forkaupsréttartilboð, þar sem ekki er greint frá endanlegum og bindandi skilmálum kaupsamnings, ekki haft réttaráhrif sem slíkt fyrr en í fyrsta lagi á þeim degi sem endanlegt kauptilboð var samþykkt,“ segir í tilkynningunni.

„Þá bera skilmálar kaupsamningsins, sem kaupandi undirritaði, með sér að frestur forkaupsréttarhafa, Ríkissjóðs, rynni út þann 10. janúar 2017 og var því ekki mótmælt af hálfu hans og mátti því vera  fyllilega ljóst frá 11. nóvember 2016 að miðað yrði við þá dagsetningu.“

Í tilkynningunni kemur fram að gengið verður frá sölu jarðarinnar Fells, fyrir hönd landeigenda, til Ríkissjóðs á næstu dögum. Afsal verður gefið út þegar skilyrði kaupsamnings hafa verið uppfyllt.

Fréttatilkynningin í heild sinni:

„Það er meginregla að forkaupsréttur verði ekki virkur fyrr en bindandi samningur kemst á milli eiganda forkaupsréttarandlags og kaupanda. Í lagalegum skilningi er litið svo á að bindandi samningur kemst ekki á fyrr en tilboð er samþykkt sem í þessu tilviki var 11. nóvember 2016. Samkvæmt gildandi rétti þarf jafnframt í forkaupsréttartilboði að greina nákvæmlega frá samningsskilmálum, sem bera með sér að vera bindandi og afdráttarlausir. Forkaupsréttartilboð það sem sent var forkaupsréttarhafa þann 7. nóvember bar ekki með sér hina endanlegu kaupsamningsskilmála, þeir urðu ekki ljósir fyrr en við samþykkt tilboðsins þann 11. nóvember 2016. Ríkissjóði sem forkaupsréttarhafa var tilkynnt um frest til að neyta lögbundins forkaupsréttar síns þann 7. nóvember 2016, með bréfi embættisins sýslumannsins á Suðurlandi þar sem fram kom að frestur til að taka afstöðu til réttarins rynni út þann 10. janúar 2017, 60 dögum eftir að boðið var samþykkt og forkaupsrétturinn virkjaðist.

Afstaða embættis sýslumannsins á Suðurlandi er sú að þar sem ekki komst á bindandi kaupsamningur milli sýslumannsins á Suðurlandi f.h. landeiganda Fells og kaupanda fyrr en 11. nóvember 2016, þegar kauptilboðið var samþykkt með endanlegum samningsskilmálum, getur forkaupsréttartilboð, þar sem ekki er greint frá endanlegum og bindandi skilmálum kaupsamnings, ekki haft réttaráhrif sem slíkt fyrr en í fyrsta lagi á þeim degi sem endanlegt kauptilboð var samþykkt.
Þá bera skilmálar kaupsamningsins, sem kaupandi undirritaði, með sér að frestur forkaupsréttarhafa, Ríkissjóðs, rynni út þann 10. janúar 2017 og var því ekki mótmælt af hálfu hans og mátti því vera  fyllilega ljóst frá 11. nóvember 2016 að miðað yrði við þá dagsetningu. Verður því að miða við að forkaupsréttartilboðið hafi fyrst haft réttaráhrif þann 11. nóvember 2016 og því sé yfirlýsing Ríkissjóðs um nýtingu forkaupsréttarins, sem barst þann 9. janúar sl., komin fram innan lögbundins frests.

Gengið verður frá sölu Fells til Ríkissjóðs á næstu dögum og afsal gefið út þegar skilmálar kaupsamnings hafa verið.

Mun á næstu dögum verða gengið frá sölu jarðarinnar Fells f.h. landeiganda til Ríkissjóð og mun afsal verða gefið út þegar skilyrði kaupsamnings hafa verið uppfyllt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert