Ráðherra á sömu blaðsíðu og borgarstjórn

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Reykjavíkurborgar.
Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Reykjavíkurborgar. mbl.is/Rax

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður umhverfis- og skipulagsráðs, segir að það virðist vera sem samgönguráðherra sé á sömu blaðsíðu og meirihluti borgarstjórnar hvað varðar flugvöllinn í Reykjavík.

„Ég heyrði að ráðherra var á Rás 2 í morgun og heyrði ekki betur en að hann væri mestan part á sömu blaðsíðu og flest okkar í borgarstjórn og vonandi ríkisstjórn líka,“ segir Hjálmar í samtali við mbl.is.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra sagði meðal annars í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun að höggva yrði á hnútinn í deilunni um flugvöllinn. Jón bætti því við að hann treysti því að hægt væri að ná þessu samkomulagi og þessu samtali við yfirvöld í Reykjavíkurborg.

Jón sagði í gær, eftir fyrsta fund nýrrar ríkisstjórnar, að honum þætti bagalegt að NV-SV flugbrautinni, stundum nefnd neyðarbraut, á Reykjavíkurflugvelli hefði verið lokað. Auk þess sagði hann að eini raunhæfi kosturinn væri að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni.

Frétt mbl.is: „Bagalegt að brautinni hafi verið lokað“

„Manni fannst eftir ummælin í gær að það væri einhver misbrestur á því en eftir viðtalið í morgun heyri ég ekki betur en að þetta geti allt fallið ágætlega saman,“ segir Hjálmar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert