„Þetta er nýtt form af örorku“

Foreldrar og forráðamenn þurfa að setja reglur um snjalltækja- og …
Foreldrar og forráðamenn þurfa að setja reglur um snjalltækja- og tölvunotkun barna sinna.

Þau börn sem eru með flókin taugafrávik í þroska virðast vera viðkvæmari en önnur fyrir snjalltækninni. Þetta eru börn með ofvirkni, athyglisbrest, einhverfu, tourette-einkenni eða asperger svo dæmi séu tekin. Dæmi eru um að mikil skjánotkun geti leitt til örorku. Foreldrar og forráðamenn þurfa að vera vakandi fyrir áhrifum þessarar nýju tæknibyltingar á börn sín. Hún hafi ótal kosti en líka galla sem ekki má líta fram hjá.

Þetta kom fram í erindi Björns Hjálmarssonar, barnalæknis á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, á ráðstefnu BUGL sem nefnist Börn, unglingar og samfélagsmiðlar.  

Erindi Björns nefnist „Rafrænt skjáheilkenni (Electronic screen syndrome) – staðreynd eða mýta?“. Hann segir talsverða umræðu meðal fræðimanna um rafrænt skjáheilkenni og sjálfur telji hann haldbær rök fyrir tilvist heilkennisins. Hann segir að vissulega þurfi fleiri klínískar rannsóknir til að rannsaka áhrif snjalltækja og skjánotkunar á börn og þroska þeirra. Einn af þeim fræðimönnum sem hafa verið leiðandi í rannsóknum á þessu sviði er sálfræðingurinn Victoria Dunckley en hún skrifaði meðal annars bókina, Reset your Child's Brain. Björn vísaði í rannsóknir hennar í erindi sínu.    

Gætu stundað vinnu og skóla

Björn segir mikla tölvunotkun geta leitt til örorku. Hann nefnir dæmi um að geðlæknar á BUGL standi frammi fyrir þeim kosti að þurfa að setja unga drengi á aldrinum 16 til 18 ára á örorku vegna tölvunotkunar. Ástæðan er sú að annaðhvort eru þeir í tölvunni eða rúminu, hafa einangrað sig frá samfélaginu og stunda hvorki skóla né vinnu. Engin önnur úrræði virka. „Þetta er nýtt form af örorku. Ef það væri ekki fyrir netmiðlana og tölvunotkun þá ættu þessir einstaklingar að geta stundað vinnu og skóla,“ segir Björn. 

Dæmi eru um að börn frá 6 ára aldri og upp til 18 ára aldurs glími við vanda vegna tölvunotkunar. Vandinn lýsir sér meðal annars í því að það er erfitt að fá þau til að hætta í tækinu. Þau lenda í hegðunarvanda í skóla, á heimilinu eða með vinum. Geðræn einkenni lýsa sér í kvíða og/eða depurð og þau virðast vera hengd upp á þráð þegar þau eru ekki í snjalltæki eða tölvu. Þetta truflar líka svefninn þeirra, að sögn Björns.

Þurfum að „finna meðalhófið“

„Það þarf að verða vitundarvakning. Þetta er gagnleg tækni sem hefur gjörbreytt mörgu. Við þurfum að setja reglur um notkun og finna meðalhófið,“ segir Björn og bendir á að Ísland er eitt af þeim löndum þar sem flestir eru með nettengingu eða um 98%.

„Það er hægt að vera bjartsýnn og svartsýnn á þessa nýju tækni en það er gott að vera raunsær,“ segir Björn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert