„Þróunin getur ekki haldið svona áfram“

Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Styrmir Kári

Fjölgun nýrra öryrkja á síðasta ári var 22 prósent miðað við árið á undan. Á síðasta ári voru 1.796 einstaklingar úrskurðaðir með 75 prósent örorkumat en árið áður voru þeir 1.471 talsins. Fleiri konur en karlar voru á 75% örorku á síðasta ári. Sé litið til síðustu tíu ára voru 44 prósent fleiri nýir öryrkjar árið 2016 en árið 2007. Þessar tölur endurspegla nýgengi 75% örorkumats en ekki aukningu í heildarfjölda örorkulífeyrisþega. 

Á síðasta ári lagði Tryggingastofnun mikla áherslu á að stytta afgreiðslutíma umsókna. Það getur komið fram sem tímabundin aukning í nýgengi þótt það skýri ekki þessa aukningu eitt og sér. Þetta kemur fram í svari upplýsingafulltrúa Tryggingastofnunar. Á móti aukningunni í nýgengi kemur að ákveðinn fjöldi örorkulífeyrisþega fellur frá á ári hverju, aðrir fara yfir á ellilífeyri, örorkumat er í sumum tilfellum tímabundið. Stofnunin bendir einnig á að nýgengistölur milli kynja sveiflast þó nokkuð milli ára.

Í aldurshópnum 15 ára til 39 ára  fengu 669 einstaklingar úrskurð um 75% örorkumat á síðasta ári. Það er um 37% af þeim sem fengu slíkan úrskurð. „Það er mikið áhyggjuefni hve hratt fjölgar í yngstu aldurshópunum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Á vefsíðu samtakanna er tekin saman náttúruleg fjölgun á vinnumarkaði og nýgengi örorku.  

Hann segir brýnt að sporna gegn þessari þróun því einstaklingar sem fá mat um 75% örorku eru í flestum tilvikum varanlega útskrifaðir af vinnumarkaði. Hann bendir á að stofnanir þurfi að vinna betur saman og veita fólki sem er í vanda vegna veikinda eða slysa þjónustu á fyrri stigum, svokallaða snemmtæka íhlutun.

„Þróunin getur ekki haldið svona áfram það er ljóst,“ segir hann. Í því samhengi bendir hann á að sífellt fleiri fara af vinnumarkaði en koma inn á hann, einkum vegna hækkandi meðalaldurs og mikillar örorkutíðni. „Ef ekki væri fyrir erlent starfsfólk á vinnumarkaðnum hér væri staðan mjög slæm,“ segir Halldór. 

Starfsgetumat í stað örorkumats 

„Rétt viðbrögð til að sporna gegn þróuninni er annars vegar breyting á lögum um almannatryggingar þar sem starfsgetumat komi í stað örorkumats og hins vegar bætt samstarf milli Tryggingastofnunar og VIRK starfsendurhæfingar. Starfsemi Virk er prógram sem virkar, um það liggja fyrir óyggjandi tölur,“ segir Halldór spurður hvað sé hægt að gera til fá fleiri einstaklinga á vinnumarkaðinn. 

Hlutverk VIRK er meðal annars að efla starfsgetu einstaklinga í kjölfar veikinda eða slysa með starfsendurhæfingarþjónustu. Alls hafa 11.000 ein­stak­ling­ar leitað til VIRK frá stofn­un starf­send­ur­hæf­inga­sjóðsins árið 2008.

Frétt mbl.is: 11.000 hafa leitað til VIRK



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert