Körpuðu um upphaf aðalmeðferðar

Aðalmeðferð málsins hefur verið frestað.
Aðalmeðferð málsins hefur verið frestað. mbl.is/Eggert

Talsverður ágreiningur kom upp á meðal verjenda og dómara við upphaf réttarhalda yfir þeim átta, sem ákærð eru fyrir umsvifamikil fjársvik. Snerust deilurnar um hvort aðalmeðferð, sem hefjast átti klukkan níu í morgun, væri í raun hafin. Henni hefur nú verið frestað.

Ástæða ágreiningsins var sú bókun, sem verjandi eins ákærða lagði fram strax í upphafi réttarhaldanna, um að einn þriggja dómara, Sandra Baldvinsdóttir, skyldi víkja sæti í málinu.

Frétt mbl.is: Einn þriggja dómara sagður vanhæfur

Mismunandi reglur gilda um möguleikann á að kæra ákvarðanir og úrskurði héraðsdóms til hæstaréttar, eftir því hvort aðalmeðferð sé hafin eða ekki.

Því vildu dómarar meina, að hún væri þegar hafin, meðal annars vegna þess að búið væri að taka nafnakall. Verjandinn sagði aftur á móti að hún hæfist ekki fyrr en sækjandinn gerði viðstöddum grein fyrir sakarefninu, sem hann hafði ekki gert.

Krafðist verjandinn þess þá að úrskurðað yrði um þetta, og að hann fengi að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar, á meðan dómarar vildu að mótmæli hans yrðu bókuð, og svo haldið áfram með réttarhöldin.

Tvö hlé á aðeins hálftíma

Eftir stutt karp um þetta atriði ákváðu dómarar að taka sér annað hlé, sem þá voru orðin tvö á aðeins hálftíma.

Að því loknu sögðu dómararnir að fallist væri á sjónarmið verjandans, um að aðalmeðferðin væri ekki hafin.

Að minnsta kosti sex verjendur sögðust því þó ekki sammála. Hún hæfist í raun á hamarshöggi og nafnakalli. Hagsmunir skjólstæðinganna fælust í að halda málinu áfram, án frekari frestana. Eins og áður var getið kom málið upp árið 2010.

Kröfu verjandans, um að dómarinn viki sæti í málinu, var þá hafnað af dómendum. Var hann umsvifalaust kærður til Hæstaréttar.

Aðalmeðferð málsins hefur því verið frestað, eins og áður sagði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert