Berbrjósta gestir velkomnir í Reykjavík

Frá Laugardalslaug.
Frá Laugardalslaug. mbl.is/Freyja

Sundlaugagestum Reykjavíkurborgar er velkomið að mæta án sundfata að ofanverðu. Þetta segir Þórgnýr Thoroddsen, formaður ÍTR, í samtali við mbl.is.

„Ég er einmitt í dag að láta kanna hvort reglur ríkisins takmarka okkar vald í þessum efnum, en reglurnar eins og þær eru í dag kveða á um að fólk eigi að klæðast sundfötum og svo er það ekki skilgreint nánar,“ segir Þórgnýr.

„Það eru allir nokkuð sammála um að það sé ekki hugmyndin að mismuna fólki á grundvelli þess hvort það sé með brjóst eður ei. Það er í raun og veru alveg ástæðulaust.“

Hann segir það þá gerast af og til, að einhver kvarti yfir því að kvenkyns sundlaugargestur sé ekki í topp. Þá sé viðkomandi boðið að leggja inn skriflega kvörtun. Fólki sé hins vegar ekki vísað upp úr.

„Það má alveg skoða hvort það megi endurorða reglurnar, svo ekki sé talað um sundföt, heldur einfaldlega sundskýlur,“ segir Þórgnýr að lokum.

Atvik sem átti sér stað á Akranesi um helgina hefur vakið töluverða athygli, þegar ungri konu var sagt að yfirgefa laugina þar sem hún huldi ekki brjóst sín.

Frétt mbl.is: Berbrjósta vísað upp úr sundlaug

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert