Tekjuhæstu 10% fengu 22 milljarða

Bjarni Benediktsson, fyrrverandi fjármálaráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, …
Bjarni Benediktsson, fyrrverandi fjármálaráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, á blaðamannafundi þar sem skuldaleiðréttingin var kynnt. mbl.is/Ómar

Þau tíu prósent landsmanna sem þénuðu mest á árinu 2014 fengu tæplega 30% þeirra 72,2 milljarða króna sem ráðstafað var í höfuðstólsleiðréttingar fasteignaveðlána af síðustu ríkisstjórn. Alls fór 86% af leiðréttingunni til tekjuhærri helmings þjóðarinnar en 14% til þess tekjulægri.

Þetta kemur fram í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána, sem hann hefur ákveðið að leggja fyrir Alþingi. Skýrslan var birt á vef ráðuneytisins í dag. Í skýrslunni eru svör við fimm spurningum sem þingmenn stjórnarandstöðunnar settu fram um skiptingu leiðréttingarinnar, meðal annars eftir tekjum og eignum. 

62,4 milljörðum ráðstafað sem beinni höfuðstólslækkun

Fyrsta spurningin sneri að því hvernig heildarupphæð þeirrar fjárhæðar sem varið hefur verið til lækkunar verðtryggðra fasteignaveðlána einstaklinga skiptist milli beinnar höfuðstólslækkunar á fasteignaveðlánum einstaklinga og frádráttarliða, svo sem fasteignaveðkrafna án veðtrygginga, vanskila og greiðslujöfnunarreikninga. Næsta spurning um hverjir frádráttarliðirnir væru og hver væri skiptingin milli þeirra í krónum talið. Þá snerist þriðja spurningin að því hvert væri heildarhlutfall beinnar höfuðstólslækkunar, þ.e. lækkunar höfuðstóls að undanskildum frádráttarliðum, af verðtryggðum fasteignaveðlánum.

Í svari ráðuneytisins segir að heildarfjárhæð sem ráðstafað var inn á fasteignaveðlán hafi verið 72,2 milljarðar króna, þar af 62,4 milljörðum ráðstafað sem beinni höfuðstólslækkun. 8,7 milljörðum hafi verið ráðstafað inn á greiðslujöfnunarreikninga, 1,3 milljörðum sem greiðslu inn á vanskil, áfallnar verðbætur og vexti og 970 milljónir sem greiðslu inn á fasteignaveðkröfur sem glatað hafa verðtryggingu. Hlutfall beinnar höfuðstólslækkunar af leiðréttingarfjárhæð sem ráðstafað var til lækkunar á höfuðstól fasteignaveðlána sé 98%, þar af séu greiðslur inn á greiðslujöfnunarreikninga 12% en þeir séu hluti höfuðstóls.

Tekjuhæsti hópurinn fékk 30% af leiðréttingunni

Í fjórðu spurningunni var spurt um hvernig heildarupphæðin sem varið hefur verið til lækkunar verðtryggðra húsnæðislána dreifist eftir tekjum á milli allra framteljenda árið 2014, hvort sem þeir nutu lækkunar eða ekki. Hvert sé hlutfall heildarupphæðarinnar sem skiptist niður á tekjubil hvers tíunda hluta fyrir sig, miðað við eignir á árinu 2014 og hver sé fjöldi framteljenda á bak við hvert tekjubil.

Í svarinu kemur fram að langstærsti hluti fjárins fór til þess hóps sem er í efri hluta tekjudreifingar landsmanna. Þá kemur fram að tekjulægri helmingur landsmanna fékk tæplega 14 prósent af upphæðinni en tekjuhæstu tíu prósent þeirra fékk tæplega 30 prósent upphæðarinnar. Meðaltekjur tekjuhæsta hópsins árið 2014 voru 21,6 milljónir króna. Samkvæmt þessu runnu tæpir 22 milljarðar króna til þess hóps. 

Fimmta og síðasta spurningin laut að því hvernig heildarupphæðin skiptist á milli eignahópa. Í svari ráðuneytisins segir að í neðstu eignatíundinni sé meðal hrein eign neikvæð sem nemur 11,5 milljónum króna. Þangað hafi 12,3% fjárhæðarinnar verið ráðstafað. Í efstu eignatíundinni sé hrein eign 82,6 milljónir króna að meðaltali og þeir einstaklingar hafi fengið 13,3% fjárhæðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina