Togarinn mun koma að höfn í Hafnarfirði

Grænlenski togarinn Polar Nanoq er væntanlegur til hafnar í Hafnarfirði …
Grænlenski togarinn Polar Nanoq er væntanlegur til hafnar í Hafnarfirði í kvöld. Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson

Grænlenski togarinn Polar Nanoq mun leggjast að bryggju í Hafnarfjarðarhöfn í kvöld, líklega um kl. 23. Þetta segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri í samtali við mbl.is. Hann segir að þar sem staðurinn þar sem skór Birnu Brjánsdóttur fundust á mánudagskvöld sé ekki á umráðasvæði hafnarinnar, nái eftirlitsmyndavélakerfi hennar ekki þangað. 

Togarinn var við festar í Hafnarfjarðarhöfn er Birna hvarf að morgni laugardags, fyrir rúmum 100 klukkustundum síðan. Í gær kom fram í fréttum að lögreglan væri m.a. að skoða hvort að rauður Kia Rio-bíll, sem skipverjar höfðu á leigu, sé sá hinn sami og sást á eftirlitsmyndavélum í miðborg Reykjavíkur á sama tíma og Birna. Lýst var eftir ökumanni bílsins en hann gaf sig aldrei fram.

Á eftirlitsmyndavélum Hafnarfjarðarhafnar sást að bíl af þessari tegund og lit var ekið að skipinu milli kl. 6 og 6.30 að morgni laugardagsins. Það var örfáum mínútum eftir að síðustu merki frá síma Birnu voru móttekin í sendi í Flatahrauni í Hafnarfirði. Talið er að slökkt hafi verið handvirkt á símanum.

Samkvæmt heimildum mbl.is fór bíllinn svo til og frá hafnarsvæðinu nokkrum sinnum um morguninn og fram eftir degi.

Togarinn, sem er í eigu útgerðarfélagsins Polar Seafood, sigldi svo frá höfninni að kvöldi laugardags, um kl. 21. 

Engin kæra komin fram

Samkvæmt heimildum mbl.is var fjórum rannsóknarlögreglumönnum flogið með þyrlu Landhelgisgæslunnar um borð í danska varðskipið Triton í gærkvöldi. Danski herinn staðfesti við mbl.is að lögregluyfirvöld á Íslandi hefðu óskað eftir aðstoð.

Í gærkvöldi var svo ákveðið að snúa togaranum, sem var kominn að Grænlandsströndum, aftur til Íslands. 

Í yfirlýsingu sem útgerðarfélagið sendi fjölmiðlum í morgun kemur fram að lögreglan hafi til rannsóknar hvort einn eða fleiri úr áhöfn skipsins tengist hvarfi Birnu. Þar segir ennfremur að á þesari stundu hafi engin kæra verið lögð fram og að áhöfnin muni veita lögreglunni alla þá aðstoð sem hún getur við rannsókn hvarfsins.

Fréttin verður uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert