Togarinn mun koma að höfn í Hafnarfirði

Grænlenski togarinn Polar Nanoq er væntanlegur til hafnar í Hafnarfirði …
Grænlenski togarinn Polar Nanoq er væntanlegur til hafnar í Hafnarfirði í kvöld. Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson

Grænlenski togarinn Polar Nanoq mun leggjast að bryggju í Hafnarfjarðarhöfn í kvöld, líklega um kl. 23. Þetta segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri í samtali við mbl.is. Hann segir að þar sem staðurinn þar sem skór Birnu Brjánsdóttur fundust á mánudagskvöld sé ekki á umráðasvæði hafnarinnar, nái eftirlitsmyndavélakerfi hennar ekki þangað. 

Togarinn var við festar í Hafnarfjarðarhöfn er Birna hvarf að morgni laugardags, fyrir rúmum 100 klukkustundum síðan. Í gær kom fram í fréttum að lögreglan væri m.a. að skoða hvort að rauður Kia Rio-bíll, sem skipverjar höfðu á leigu, sé sá hinn sami og sást á eftirlitsmyndavélum í miðborg Reykjavíkur á sama tíma og Birna. Lýst var eftir ökumanni bílsins en hann gaf sig aldrei fram.

Á eftirlitsmyndavélum Hafnarfjarðarhafnar sást að bíl af þessari tegund og lit var ekið að skipinu milli kl. 6 og 6.30 að morgni laugardagsins. Það var örfáum mínútum eftir að síðustu merki frá síma Birnu voru móttekin í sendi í Flatahrauni í Hafnarfirði. Talið er að slökkt hafi verið handvirkt á símanum.

Samkvæmt heimildum mbl.is fór bíllinn svo til og frá hafnarsvæðinu nokkrum sinnum um morguninn og fram eftir degi.

Togarinn, sem er í eigu útgerðarfélagsins Polar Seafood, sigldi svo frá höfninni að kvöldi laugardags, um kl. 21. 

Engin kæra komin fram

Samkvæmt heimildum mbl.is var fjórum rannsóknarlögreglumönnum flogið með þyrlu Landhelgisgæslunnar um borð í danska varðskipið Triton í gærkvöldi. Danski herinn staðfesti við mbl.is að lögregluyfirvöld á Íslandi hefðu óskað eftir aðstoð.

Í gærkvöldi var svo ákveðið að snúa togaranum, sem var kominn að Grænlandsströndum, aftur til Íslands. 

Í yfirlýsingu sem útgerðarfélagið sendi fjölmiðlum í morgun kemur fram að lögreglan hafi til rannsóknar hvort einn eða fleiri úr áhöfn skipsins tengist hvarfi Birnu. Þar segir ennfremur að á þesari stundu hafi engin kæra verið lögð fram og að áhöfnin muni veita lögreglunni alla þá aðstoð sem hún getur við rannsókn hvarfsins.

Fréttin verður uppfærð.

mbl.is