Einn látinn laus úr gæsluvarðhaldi

Tveir skipverjar af grænlenska togaranum Polar Nanoq eru í gæsluvarðhaldi …
Tveir skipverjar af grænlenska togaranum Polar Nanoq eru í gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vonir eru um að eitthvað geti skýrst varðandi ferðir rauða Kia Rio-bílsins laugardagsmorguninn 14. janúar, daginn sem Birna Brjánsdóttir hvarf. Enn vantar upplýsingar um ferðir bifreiðarinnar á milli 7 og 11. 

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn og stjórnandi rannsóknar á hvarfi Birnu, segir að ákveðin von sé um að hægt verði að ná upplýsingum um ferðir bílsins á þessum tíma án þess að geta farið nánar út í hvað það er. Lögreglan hefur einkum reitt sig á upplýsingar úr eftirlitsmyndavélum og símagögn varðandi ferðir bílsins og eins hafa einhverjar upplýsingar komið frá almenningi.

Birna Brjánsdóttir sást síðast á eftirlitsmyndavél á Laugavegi að morgni …
Birna Brjánsdóttir sást síðast á eftirlitsmyndavél á Laugavegi að morgni laugardagsins 14. janúar. Myndir/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Grímur segir að áherslan sé lögð á það núna að koma leit dagsins í gang en um 500 björgunarsveitarmenn taka þátt í leitinni í dag. „Við erum vongóð áfram,“ segir Grímur en það voru viss vonbrigði að leitin skyldi ekki skila árangri í gær.

Að sögn Gríms er lögreglan enn að fara yfir þau gögn sem hún hefur undir höndum, það er bæði myndbandsupptökur og farsímagögn tvímenninganna sem sitja í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni. Þeir hafa ekki verið yfirheyrðir um helgina en stefnt er að því að yfirheyra þá á morgun.

Ökumaður hvíta bílsins en ófundinn

Alls voru þrír skipverjar Polar Nanoq úrskurðaðir í gæsluvarðhald í síðustu viku. Tveir í tveggja vikna gæsluvarðhald vegna hvarfs Birnu og einn var úrskurðaður í gæsluvarðahald til mánudagskvölds en sá úrskurður byggði á fíkniefnafundi um borð í togaranum. Grímur segir að sá skipverji sé laus úr gæsluvarðhaldi en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bíður enn niðurstöðu Hæstaréttar um hvort tvímenningarnir verði úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald líkt og farið var fram á. Dómari við Héraðsdóm Reykjaness féllst ekki á beiðni lögreglunnar og úrskurðaði þá í tveggja vikna gæsluvarðhald. 

Að sögn Gríms eru málin rannsökuð hlið við hlið þrátt fyrir að vera hvort sitt málið en þau eru bæði innan vébanda miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Ökumaður hvíta bílsins sem lögreglan hefur beðið um að hafa samband er enn ófundinn, hafa margar ábendingar borist um hver hann geti verið en þær hafa ekki skilað tilætluðum árangri.

mbl
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir að ná tali af ökumanni …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir að ná tali af ökumanni hvíta bílsins, sem var ekið vestur Óseyrarbraut í Hafnarfirði laugardaginn 14. janúar kl. 12.24. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert