Sáu um leið að þetta væri Birna

Um leið og áhöfnin um borð í TF-Líf kom auga á lík á ströndinni rétt vestan af Selvogsvita fór ekki á milli mála að Birna Brjánsdóttir væri fundin. Aðstæður voru þannig á svartri klettaströndinni að á því lék enginn vafi, að sögn Björns Brekkan flugstjóra.

Þyrlusveitin var að klára sitt leitarsvæði þegar einn í áhöfninni kom auga á Birnu og því hefði getað liðið töluverður tími þar til að Birna hefði fundist en einungis 15 mínútur voru eftir af leit sveitarinnar. Því var mikill léttir á meðal áhafnarinnar þegar ljóst var að Birna hefði fundist 8 dögum eftir að hafa horfið í miðbænum.

Um borð var fimm manna leitaráhöfn Landhelgisgæslunnar auk tveggja björgunarsveitarmanna en þyrlan flaug í um 60 metra hæð á 60-70 kílómetra hraða.

mbl.is ræddi við  Björn Brekkan flugstjóra og Elvar Stein Þorvaldsson yfirstýrimann í dag. Í myndskeiðinu má einnig sjá myndir frá ströndinni við Selvogsvita sem teknar voru í dag.

mbl.is