Geðveikur fótbolti í útrás

FC Sækó á æfingu. Til hægri eru forsvarsmennirnir Bergþór Grétar …
FC Sækó á æfingu. Til hægri eru forsvarsmennirnir Bergþór Grétar Böðvarsson, Helgi Þór Gunnarsson og Rúnar Arnarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verkefnið Geðveikur fótbolti, sem er samstarfsverkefni geðsviðs Landspítala, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Hlutverkaseturs, hefur fest sig í sessi og forsvarsmenn liðsins FC Sækó vinna nú að undirbúningi þriðju utanlandsferðarinnar, sem verður á næsta ári.

Hópurinn samanstendur af einstaklingum sem eiga við geðræna sjúkdóma að etja og starfsmönnum á fyrrnefndum sviðum og setri auk þeirra sem styðja við verkefnið. Það hefur staðið yfir frá 2011 og hefur hópurinn farið í tvær keppnisferðir, til Skotlands haustið 2014 og til Englands haustið 2016, en í báðum tilfellum var spilað á móti sambærilegum liðum, fyrst í Glasgow og Falkirk og síðan í Nottingham. Stefnt er að ferð til Noregs á næsta ári.

Um 20 manns mæta reglulega á æfingar tvisvar í viku. „Þetta er fyrst og fremst fótbolti með meðferðarlegu úrræði,“ segir Rúnar Arnarson, ráðgjafi og stuðningsfulltrúi og einn af aðstandendum verkefnisins. Hann segir að sumir í hópnum hafi æft með knattspyrnufélögum og þó að þeir hafi flosnað þar upp hafi þeir áfram brennandi áhuga á fótbolta og þetta verkefni sé kjörinn vettvangur til þess að stunda áhugamálið.

Knattspyrnusamband Íslands hefur stutt verkefnið á ýmsan hátt. Þjálfarar þaðan hafa til dæmis stjórnað ákveðnum æfingum á sumrin og KSÍ hefur séð hópnum fyrir boltum, keilum, vestum og búningum. „Við höfum verið í mjög góðu samstarfi við KSÍ,“ segir Rúnar.

Ferðirnar skila miklu

Rúnar segir að fólk með geðræna sjúkdóma eigi það til að einangra sig félagslega. Þetta verkefni taki meðal annars á þeim vanda, en menn velti sér ekki upp úr vandamálunum heldur njóti þess að vera saman í fótbolta. Í ferðunum takist menn líka á við ýmsar hindranir. Sumir séu að fara í fyrsta sinn til útlanda, aðrir séu flughræddir og svo framvegis. „Við sjáum mikinn árangur í þessum ferðum,“ segir hann og bendir á að í þeim hafi sumir keypt sér föt í fyrsta sinn og farið út að borða með félögunum. Eitthvað sem flestir geri án þess að hugsa sig um en sé stór hindrum að yfirstíga hjá öðrum.

Verkefnið hefur smátt og smátt undið upp á sig, að sögn Rúnars. Hann segir að allir þátttakendur komi að skipulagningunni, en verkefnið sé háð styrkjum. Styrkur frá Evrópusambandinu, Evrópa unga fólksins, hafi fjármagnað fyrstu utanlandsferðina og í fyrra hafi ýmsir lagt hönd á plóg, meðal annars ÍBR, KSÍ, Lottó, Landspítalinn og velferðarsvið Reykjavíkurborgar. „Það er mjög erfitt að fá styrki frá fyrirtækjum en kynning á verkefninu hefur skilað árangri,“ segir Rúnar. Hann bætir við að sambærilegur hópur frá Sunderland á Englandi ferðist um heiminn og spili fótbolta og hafi sýnt áhuga á að spila á Íslandi í vor. „Liðið í Nottingham vill líka koma en það hefur ekki enn fengið nægan stuðning til þess að fjármagna gistingu hérlendis. Þetta er alþjóðlegt vandamál!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert